151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Upplýsingar hv. varaformanns velferðarnefndar varpa mjög daufri ljóstíru á þetta mál, nokkurs konar draugaljósi, vegna þess að eins og hv. þingmaður og formaður velferðarnefndar, Helga Vala Helgadóttir, bendir á var beðið um aðkomu þingflokka að því máli og það var ekki að tilefnislausu. Sú beiðni var nákvæmlega sett inn vegna þeirrar vitneskju sem við töldum okkur hafa og vegna viðbragða; að öðrum megin við stakketið væru tveir ráðgjafar ráðherra og hinum megin allir hinir. Við höfum ekkert við skýrslu að gera sem unnin er af þessum nefndu tveimur ráðgjöfum ráðherra. Við viljum fá faglegt mat á þessum verkferlum. Þess vegna er þetta draugaljós sem engu breytir fyrir upplýsingagjöf, fyrir upplýsingaskyldu heilbrigðisráðherra til Alþingis og upplýsingaskyldu heilbrigðisráðherra og Alþingis til þeirra fjölmörgu kvenna sem eiga heilsu sína undir þessari framkvæmd.