151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki gera lítið úr því að það skipti máli að við fylgjum settum reglum í þinginu um það ferli sem sett er af stað með skýrslubeiðni. En ég get ekki setið hjá í þessari umræðu þegar talið berst að þörfinni fyrir hlutlausan þriðja aðila sem ráðherra eigi að fela alla vinnuna. Hérna tel ég að þingið sé komið algerlega út af sporinu. Skýrslubeiðni til ráðherra er til að ráðherrann komi til þingsins og geri grein fyrir sinni afstöðu, sinni framkvæmd á lögum, sínu ábyrgðarsviði. En þegar þingið er ítrekað farið að fela ráðherrum að koma með skýrslu og tekur sérstaklega fram að það verði að vera unnið af einhverjum allt öðrum en ráðherranum sjálfum, hann megi alls ekki setja sín fingraför á málið, en síðan á ráðherrann að koma til þingsins aftur með skýrsluna og standa ábyrgur fyrir því sem í henni stendur — þetta er algert rugl, virðulegi forseti. Og þingið ætti að sjá sóma sinn í því að biðja sjálft um að skýrsla sé unnin af þriðja aðila. Hvers vegna getur Alþingi ekki sjálft tekið ákvörðun um það hér á nefndasviði að fela einhverjum þriðja óháða aðila að skoða einstök mál og ekki vera að blanda ráðherra í slíkt? (Gripið fram í.)