151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[14:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta fyrir góð orð um að hotta á eftir þessari skýrslu. En ég verð að viðurkenna að viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra í þessari umræðu eru mér algerlega óskiljanleg. Ég skil ekki hvaða hjartalag það er að koma hér upp og hella fúkyrðum yfir þingheim vegna þess að hann hefur beðið um skýrslu út af máli sem varðar hundruð kvenna a.m.k. og heilsu þeirra og líf. Að koma hér og hella fúkyrðum yfir þingheim út af þessari beiðni er mér bara gjörsamlega óskiljanlegt, herra forseti. Ég held að fjármálaráðherra væri sæmra að vinna að því og reka á eftir því að þessari skýrslu sé skilað með einhverjum sæmilegum hætti og að þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru komi fram sem fyrst, í stað þess að skeyta skapi sínu á þingheimi.