151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:38]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum enn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda. Það var verið að tala um stefnu, hver stefnan ætti að vera og hver stefnan hefði verið. Það er nauðsynlegt í dag að stjórnmálaflokkar og við Íslendingar í heild mörkum einhverja stefnu í þessum málaflokki sem er orðinn mjög ofarlega á baugi um allan hinn vestræna heim. Þannig hefur það verið á Íslandi að í þessum málaflokki hefur hreinlega ekki verið nein stefna. Menn hafa ekki tekið neina markvissa stefnu í málaflokknum heldur leikið þann leik að vona það besta, vona að við fáum ekki holskeflu hælisleitenda hingað, sem síðan breyttist á skammri stundu 2014, 2015, þegar við fengum yfir okkur svona sýnishorn af þeirri holskeflu sem þá gekk yfir Evrópu. Hver voru viðbrögðin? Viðbrögð voru auðvitað fálmkennd. Það átti að reyna að bjarga þessu fyrir horn með einhverjum ráðum því að hér fylltist auðvitað allt þó að fjöldinn hafi ekki verið neitt gífurlegur miðað við hvað önnur lönd hafa þurft að glíma við í þessum efnum. En þetta er árangurinn af þessu stefnuleysi. Kerfið okkar, sem er auðvitað lítið, springur við lítið álag. Við verðum að fara að girða okkur í brók í þessum málum vegna þess að það er ekkert sjálfgefið að hingað komi hælisleitendur í einhverjum smáum stíl, eins og hefur verið, einhver hundruð eða þúsund, yfir ár eða skemmri tíma, heldur gætum við fengið mun fleiri. Þá þurfum við að vera viðbúin og vita hvað skal taka til bragðs.

Aðrar þjóðir hafa verið að reyna að senda þau skilaboð til umheimsins að þar sé afgreiðsla umsókna bæði hraðari og skilvirkari en hún hefur verið hér á landi. Við þurfum að taka upp þá stefnu og senda þau skilaboð út í heiminn að hér sé afgreiðslan hröð og skilvirk og við tökum á móti þeim flóttamönnum sem okkur ber að sjálfsögðu, með tilliti til alþjóðlegra samninga eins og við Sameinuðu þjóðirnar um kvótaflóttamenn, og aðstoðum þá hælisleitendur sem hingað koma og sannarlega þurfa á hjálp að halda.

Það er staðreynd að mjög margar umsóknir um alþjóðlega vernd eru tilhæfulausar. Það hefur verið mjög áberandi síðustu ár að hingað hefur flykkst fólk frá svokölluðum öruggum löndum en við höfum samt verið í stökustu vandræðum með að afgreiða þær umsóknir og alls kyns furðulegar uppákomur hafa orðið hér í kerfinu þegar menn hafa ekki vitað hvernig þeir eiga að taka á því og einstök mál hafa ratað í fréttir og valdið usla í samfélaginu því að auðvitað vill enginn í raun vera sá vondi. En við verðum að fara að móta okkur stefnu í þessu og ég kalla eftir því að við mótum okkur stefnu í þessum málaflokki. Það er ekki boðlegt, herra forseti, að við séum að veita milljarða á hverju ári í að sinna tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd. Það er auðvitað ekki boðlegt. Og alls ekki, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, að senda þau skilaboð út í heim að við séum með það opið kerfi að við gætum lent í því að fá þúsundir eða tugþúsundir hælisleitenda sem finnst upplagt að koma hingað vegna þess að hér fái þeir betri þjónustu o.s.frv.