151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir með þeim sem hér hafa talað. Það er ekki bara sjálfsögð kurteisi heldur skylda ráðherra að svara þeim fyrirspurnum sem til þeirra er beint og gera það innan tilskilins tíma. Nægur er nú mannaflinn og ekki hefur hann minnkað á síðustu fjórum árum. En mig langar sérstaklega að nefna erindi hv. þingkonu Hönnu Katrínar Friðriksson vegna þess að þar er um að ræða fyrirspurn um úrræði sem var vegna Covid síðasta sumar. Það hefur verið gripið til mjög stórra og mikilla úrræða á neyðartímum. Mörg hafa verið mjög þörf og eru það enn. Síðan hefur teygst á þessum faraldri og það er kannski aftur verið að endurnýja aðgerðir. Þá er það náttúrlega alveg ótrúlegt gagnvart þinginu sem þarf svo á endanum, formlega a.m.k., að samþykkja fjárveitingar í þetta, að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvernig til hefur tekist.