151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Barnvænt Ísland -- framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

762. mál
[15:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um Barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hér er um að ræða fyrstu stefnu og aðgerðaáætlun sem íslensk stjórnvöld setja fram til að fylgja eftir innleiðingu þessa mikilvæga sáttmála. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eða barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember 1989. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 26. janúar 1990 og fullgiltur 28. október 1992. Barnasáttmálinn var svo lögfestur á Alþingi í febrúar 2013. Liggur því fyrir skýr vilji til að gera mannréttindum barna hátt undir höfði hér á landi.

Hingað til hefur framkvæmdinni þó ekki verið fylgt eftir með nægilega markvissum hætti. Samkvæmt barnasáttmálanum bera aðildarríki ábyrgð á innleiðingarferli hans og þeim skyldum sem honum fylgja. Það felur m.a. í sér að ná fram sýnilegum og raunverulegum ávinningi fyrir börn og skapa menningar- og félagslegt umhverfi þar sem réttindi barna eru virt og þau geti geta notið þeirra.

Í embætti mínu sem félags- og barnamálaráðherra hef ég lagt ríka áherslu á velferð og réttindi barna og er þingsályktunartillaga þessi hluti yfirgripsmikillar vinnu sem unnin hefur verið í félagsmálaráðuneytinu með aðkomu fjölda aðila við að endurskoða og efla þjónustu og stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. Verði þingsályktunartillagan samþykkt mun Ísland skipa sér í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að mannréttindum barna og eftirfylgni þeirra.

Helsta markmið stefnunnar og aðgerðaáætlunarinnar, sem er meðfylgjandi, er að uppfylla ýtrustu kröfur barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og skyldur stjórnvalda samkvæmt barnasáttmálanum. Með stefnunni verður lögfestingu sáttmálans fylgt eftir með markvissum hætti og tryggt að sáttmálinn sé rauður þráður í stefnumótun og aðgerðum stjórnvalda. Markmið stefnunnar er enn fremur að tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar, auka samstarf milli opinberra aðila með velferð og réttindi barna að leiðarljósi, tryggja markvisst verklag við hagsmunamat út frá réttindum og velferð barna og auka þekkingu á réttindum barna innan samfélagsins. Með þessu tryggjum við enn fremur markvissa þátttöku barna og ungmenna og sköpum aukinn skilning á því að í röddum þeirra, sjónarmiðum og reynslu liggja verðmæti sem eru grundvöllur fyrir því að skapa samfélag þar sem réttindi barna eru virt í hvívetna.

Virðulegi forseti. Í september 2018 undirritaði sá sem hér stendur, ásamt ráðherrum heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, viljayfirlýsingu um að afnema hindranir milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag á Íslandi. Þar lýstu framangreindir aðilar yfir vilja til að auka samstarf milli málefnasviða sem undir þá heyra og varða réttindi og farsæld barna.

Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir að leggja skuli áherslu á að skapa barnvænt samfélag og framfylgja ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, m.a. með tilliti til þess að auka áhrif barna í íslensku samfélagi. Á grundvelli þessa lagði sá sem hér stendur fyrir ríkisstjórn í febrúar 2019 tillögu þess efnis að stefnt yrði að aukinni þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda sem og tillögu um að allar stærri ákvarðanir og lagafrumvörp skuli rýnd út frá réttindum barna. Vinna hófst strax í kjölfarið í félagsmálaráðuneytinu við mótun heildstæðrar stefnu um innleiðingu barnasáttmálans þar sem m.a. er lögð áhersla á þátttöku barna og hagsmunamat út frá réttindum barna. Stefnan og aðgerðaáætlunin byggja á almennum athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna sem leggja áherslu á að markviss innleiðing sáttmálans sé bæði heildstæð og fjölþætt. Forsendur sáttmálans eru rauður þráður í starfsemi hins opinbera og endurspeglast í viðhorfum og ákvörðunum þeirra sem vinna með börn eða koma að málum þeirra með einum eða öðrum hætti. Jafnframt ber aðildarríkjum að tryggja að góð þekking á réttindum barna sé til staðar í samfélaginu öllu og til séu verklagsreglur og ferli innan stjórnsýslunnar sem aðgerðabinda réttindi barna og stuðla að því að sáttmálinn sé hluti af stefnumótun, lagasetningu og öllum ákvörðunum stjórnvalda sem hafa áhrif á börn með einum eða öðrum hætti. Sjónarmið og þátttaka barna þarf að vera leiðarstef í allri vinnu stjórnvalda til þess að við getum uppfyllt markmið barnasáttmálans.

Þessi stefna var unnin í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins um málefni barna og að henni hafa einnig komið opinberir aðilar, félagasamtök og síðast en ekki síst börn og ungmenni. Um víðtækt samráð var að ræða og voru drög stefnunnar kynnt í samráðsgátt stjórnvalda vorið 2020. Í kjölfarið skipaði sá sem hér stendur nefnd sem falið var að vinna áfram með stefnuna, taka tillit til þeirra athugasemda sem kæmu fram og vinna aðgerðaáætlun um Barnvænt Ísland sem næði til ákveðins árafjölda. Nefndin var skipuð fulltrúum frá félagsmálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og frá umboðsmanni barna. Samhliða störfum nefndarinnar var embætti umboðsmanns barna falið að vinna í samráði við börn og ungmenni um efni stefnunnar og tóku 800 börn víðs vegar af landinu þátt í að móta stefnuna.

Nefndin skilaði lokadrögum um stefnu og aðgerðaáætlun um Barnvænt Ísland í janúar síðastliðnum og liggur nú fyrir endanleg þingsályktunartillaga byggð á þeirri stefnu og aðgerðaáætlun um Barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Stefnan og aðgerðaáætlunin miða að því, eins og áður sagði, að uppfylla ýtrustu kröfur barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og skyldur stjórnvalda samkvæmt barnasáttmálanum.

Helstu atriði stefnunnar eru m.a. að þróa þátttökuvettvang stjórnvalda við börn og ungmenni á landsvísu, standa fyrir formlegri úttekt á möguleikum og upplifunum barna og ungmenna af þátttöku og samráði við opinbera aðila í samstarfi m.a. við Evrópuráðið, að samráðsgátt stjórnvalda verði gerð aðgengilegri fyrir börn og ungmenni, að þróa mælaborð sem heldur utan um víðtækt tölfræðilegt yfirlit yfir velferð, líðan og réttindi barna á Íslandi, að móta og innleiða hagsmunamat út frá réttindum barna sem verði hluti af skyldubundnu ferli við undirbúning lagafrumvarpa, stefnumótandi ákvarðana og ákvarðana í málefnum einstakra barna, að auka réttindagæslu fyrir börn hjá embætti umboðsmanns barna, að fullgilda og hefja undirbúning að fullgildingu þriðju valkvæðu bókunarinnar við barnasáttmálann um sjálfstæða kæruleið til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, að móta heildstæða stefnu í málefnum barna og ungmenna á landsvísu, að endurskoða og samræma lagaákvæði við barnasáttmálann, að fullgilda Haag-samninginn í barnavernd, að tryggja markvissan stuðning við innleiðingu barnasáttmálans inn í skóla og frístundastarf, að tryggja áframhaldandi stuðning við sveitarfélög um innleiðingu barnasáttmálans undir formerkjum verkefnisins Barnvæn sveitarfélög, að greina menntun fagaðila sem vinna með og fyrir börn og greina þekkingu þeirra á réttindum barna, að tryggja markvissa eftirfylgd hjá stjórnvöldum með niðurstöðum barnaþings sem haldið er af umboðsmanni barna á tveggja ára fresti, að móta fræðsluáætlun um réttindi barna fyrir börn og fagaðila sem vinna með og fyrir börn, að efla dag mannréttindi barna sem haldin er 20. nóvember ár hvert.

Með hliðsjón af athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um innleiðingu barnasáttmálans til íslenskra stjórnvalda, almennum athugasemdum nefndarinnar um innleiðingu sáttmálans og víðtæku samráði legg ég fram þessa þingsályktunartillögu. Ég bind vonir við að þingheimur veiti þessu mikilvæga máli framgöngu nú á vordögum.

Við erum að gera miklar breytingar í málefnum barna og fjölskyldna þar sem markmiðið er að gera Ísland að enn betri stað fyrir börn og að þau verði hjartað í kerfinu. Kerfið á að vinna fyrir börnin en ekki öfugt. Verði þetta samþykkt á Alþingi fullyrði ég að Ísland mun skipa sér í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að réttindum barna og mun þannig leika mikilvægt hlutverk, ekki bara í því að tryggja stöðu og réttindi barna hér á landi heldur að draga vagninn fyrir réttindi barna úti um allan heim.

Virðulegi forseti. Að lokinni þeirri umræðu sem fram fer hér í þingsal legg ég til að þessu máli verði vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.