151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Um helgina skók okkur sem samfélag ný bylgja #metoo. Ég veit ekki hvort maður á að gráta eða fagna þegar slíkar bylgjur koma upp á yfirborðið. Líklega hvort tveggja. Sögurnar eru hryllilegar en við þurfum þó að fagna því að þær komi upp á yfirborðið. Líklega er bylgjan komin til að vera. Hryllilegt er að vita til þess að okkar annars góða samfélag sé með þann ljóta blett sem kynferðislegt ofbeldi og áreiti er. Við þurfum að hlusta á þessar sögur. Við þurfum að læra og við þurfum einfaldlega að gera betur. Þrátt fyrir átak í að efla rannsóknir kynferðisbrotamála og hraða afgreiðslu þeirra erum við samt ekki að gera nógu vel. Við þurfum að gera betur. Við þurfum ávallt að veita þolendum skjól og aðstoða þá.

En hvað með gerendurna? Við heyrum sögurnar. Þær eru alls konar. Stundum um hryllilegt ofbeldi, stundum þannig að upplifun einstaklinganna virðist vera mjög ólík. Hvernig vinnum við með þessa meinsemd? Er refsivörslukerfið okkar þannig búið að það geti tekist á við verkefnið? Hvernig aðstoðum við gerendur við að hætta að beita ofbeldi?