151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á nýafstöðnum landsfundi Vinstri grænna var mikið rætt um nýsköpun og fjölbreytni í henni. Áhersla á nýsköpun og rannsóknir er lykilatriði í því að fjölga stoðum undir íslenskt efnahags- og atvinnulíf og að Ísland leggi sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsvána í alþjóðlegu samhengi. Stuðningur við nýsköpun og fjölbreytt atvinnulíf hefur verið mikilvægur þáttur í stefnu Vinstri grænna frá upphafi. Undanfarin ár hefur hreyfingin lagt áherslu á stuðning við sprotafyrirtæki og umhverfi nýsköpunar þannig að hugmyndir gætu orðið að veruleika, jafnframt að hlúð væri sérstaklega að litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem komin væru af sprotastigi en væru enn þá í uppbyggingu. Sérstök áhersla hefur verið lögð á endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja og á mikilvægi nýsköpunar í almannaþjónustu. Þá hefur verið lögð áhersla á eflingu grunnrannsókna og hlutverk þeirra sem forsendu fyrir frjóu nýsköpunarstarfi á Íslandi. Markáætlun hefur verið stórefld og henni beitt til að takast á við áskoranir vegna loftslagsvár og tæknibyltingar og áhrifa á vinnumarkað, heilbrigðistækni og lýðheilsu, svo eitthvað sé nefnt.

Gjörbylting hefur orðið á umhverfi nýsköpunar, en við þurfum alltaf að gera betur. Nýsköpun getur verið með stóru sniði og hún getur verið með smáu sniði. Hún birtist í tækninýjungum, nýjum aðferðum, þjónustu og bættu verklagi. Nýsköpun drífur framþróun samfélagsins áfram, eykur velsæld og stuðlar að fjölbreyttu atvinnulífi, eins og við þekkjum. Ég held að nýsköpun eigi eftir að styrkja byggðirnar mjög á komandi árum með öllum þeim tækninýjungum sem eru, ekki bara í einhverju sérstöku tækniumhverfi heldur líka með fjölbreytni í þeim atvinnuvegum sem við höfum í dag, að það verði einnig nýsköpun í eldri atvinnuvegum. Það á eftir að styrkja mjög atvinnulíf úti um allt land.