151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka góð orð um að hafa atbeina um að koma ráðherrum til að svara skriflegum fyrirspurnum og ég geri eina slíka fyrirspurn hér að umtalsefni. Það er raunar svo langt síðan ég sendi inn skriflega fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra að það liggur við að ég sé búinn að gleyma því um hvað sú fyrirspurn snerist. Liggur við en þó ekki alveg vegna þess að þetta er mikilvægt mál sem gott hefði verið að hafa svör við nú þegar Alþingi er að fást við fjölmiðlafrumvarp hæstv. menntamálaráðherra. Ég lagði fyrirspurnina fram þann 7. desember, hún er í þremur liðum og hún er á þessa leið.

„1. Hafa íslensk stjórnvöld af sjálfsdáðum, eða í samvinnu við önnur EFTA-ríki, metið hvaða þýðingu löggjöf um skattlagningu á stafræna þjónustu, eins og Evrópusambandið og OECD eru að skoða, hefði á Íslandi?

2. Hefur verið lagt mat á það hvort íslenskt skattumhverfi sé í stakk búið að innleiða nauðsynlegar breytingar til að slík skattlagning, þvert á landamæri, virki með skilvirkum hætti á Íslandi?

3. Telur ráðherra ekki mikilvægt að hafin sé strax vinna við gerð á íslenskri löggjöf um skattlagningu á stafræna þjónustu svo að Ísland verði tilbúið í breytingar með öðrum þjóðum á Evrópska efnahagssvæðinu þegar að þeim kemur?“

Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvað veldur því að hæstv. fjármálaráðherra þverskallast við að taka saman svör við þessum spurningum en þær varða grundvallaratriði í rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi og þá hrikalega skekktu samkeppnisstöðu sem þeir búa við gagnvart alþjóðarisum sem starfrækja samfélagsmiðla og greiða enga skatta og engin laun (Forseti hringir.) en hirða æ stærri hlutdeild á auglýsingamarkaði.