151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[14:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega eðlilegt og viðbúið að hagsmunir togist á þegar við þurfum að takmarka nýtingu einhverrar auðlindar til að halda í auðlindina sjálfa. Þá finnst eðlilega einum of mikið nýtt og öðrum of lítið nýtt. Hygg ég að það sé mjög skýrt og ríkt tölfræðilegt mynstur milli þess hvaðan fólk kemur að þeirri spurningu og hvað því finnst.

Hér er spurt hvort ekki þurfi að auka rannsóknir á ýmsum tegundum og endurskipuleggja þær. Svarið við þeirri spurningu hygg ég að sé einfaldlega: Jú, að þess þurfi, það sé við hæfi. Ég hlýddi vel á ræðu hæstv. ráðherra og fannst það ekki koma skýrt fram í svari hans, sem mér finnst mikilvægt að sé mjög skýrt. (Gripið fram í.) — Já, ég treysti hæstv. ráðherra til að svara fyrir sig hér á eftir sem endranær. En ég vil þá minna á að öll óvissa sem verður vegna þess að rannsóknir eru ekki nógu ítarlegar, af hvaða ástæðum svo sem það er, hlýtur að kalla á varúð og þar með minni nýtingu, þannig að það getur verið bein fjárfesting í því að auka rannsóknir til þess að auka vissuna og þar með nýta betur það sem nýta má.

En sömuleiðis, eins og kom fram í ágætri ræðu hv. þingmanns Miðflokksins áðan, er upplifunin á sjónum oft önnur en sú sem veiðiráðgjöfin segir til um. Það ástand eitt og sér er óheppilegt, virðulegi forseti. Það er langtum betra að veiðiráðgjöfin sé byggð á gögnum og þekkingu og rannsóknum sem eru óyggjandi í augum allra sem að borðinu koma, en þá þarf Hafrannsóknastofnun að hafa fjárhagslega burði til að sinna þeim rannsóknum sem sinna þarf. Þetta er ekki sagt til þess að draga úr annars ágætri hugmynd hv. þingmanns Miðflokksins áðan. Í öllu falli fæ ég ekki betur séð en að svarið sé: Já, það þarf að auka rannsóknir í þessum efnum, ekki síst til að auka nýtingu auðlindarinnar og fara betur með hana.