151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvægt skref en þó einungis hænuskref í átt að því að við náum að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk. Við þurfum að lögfesta hann, það var ákveðið og samþykkt á þessu þingi fyrir tveimur árum að það ætti að gera. Allir greiddu því atkvæði, nema tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem studdu ekki það mál. Það er ekki mikið eftir af tímanum og það er fullt af málum sem ríkisstjórnin hrúgar hingað inn og ég hefði talið það ekki bara æskilegt heldur nauðsynlegt og virðingarvert að ríkisstjórnin hefði kynnt hér til leiks frumvarp sem myndi lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það hefði verið bragur á því. Ég mun segja já við þessu máli. En þetta er bara eitt skref. Við þurfum að stíga mun stærra skref í þágu fólksins okkar, í þágu þeirra sem mest þurfa á því að halda og í samræmi við ótvíræðan vilja löggjafarvalds okkar Íslendinga.