151. löggjafarþing — 94. fundur,  11. maí 2021.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru o.fl.

769. mál
[15:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vildi koma hér upp til að árétta það, líkt og við fyrri tækifæri þegar svokölluð Covid-mál hafa verið hér til umræðu í þinginu, að Viðreisn hefur lagt sig fram um að greiða götu slíkra mála. Það sama gildir um þetta mál sem hér er til afgreiðslu, við styðjum framgang þess og ég ritaði undir þetta nefndarálit án fyrirvara. Engu að síður er rétt að halda því til haga að það hefur verið nokkuð bagalegt hve mikill hraði hefur verið á þessu máli. Það er í sjálfu sér aldrei gott. En við látum það ekki bitna á afstöðu okkar að þessu sinni þannig að við styðjum málið. Í þessu eru nokkur atriði sem horfa til bóta. Mörg þeirra voru í sjálfu sér fyrirséð þannig að það hefði verið hægt að gefa þessu rýmri tíma. Ríkisstjórnin hefði getað verið heldur fyrr á ferðinni.

Ég vil að síðustu minnast á það hér að eitt af þeim úrræðum sem hefur verið gripið til hefur verið það að heimila úttekt af séreignarsparnaði og hafa umtalsverðir fjármunir runnið út á þessum grundvelli. Þetta eru þá fjármunir sem fólk hefur lagt til hliðar til þess að nýta eftir sextugt. Margir hafa tekið þetta út, greitt af því fullan skatt og þannig hefur ríkissjóður haft umtalsverðar skatttekjur af þessum úttektum. Það er almennt rétt að íhuga mjög vandlega tilfelli eins og þessi, framlengingu þessa úrræðis og síðan vaxandi tilhneigingu til að sækja með einhverjum hætti í lífeyrissparnað landsmanna, séreignarsparnað til að verja til elliáranna. Við erum með ákvæði víða þar sem verið er að veita heimildir til úttektar til að greiða inn á fasteignir og fasteignalán. Allt er þetta í sjálfu sér góðra gjalda vert. En það er spurning hvort það sé ekki orðið meira en tímabært að skoða vandlega hvort nýting þessara fjármuna með þeim hætti sé skynsamleg. Ef niðurstaðan er sú að þetta sé í sjálfu sér skynsamlegt, þetta sé í sjálfu sér eins og hver annar sparnaður sem fólk eigi að hafa ráðstöfunarrétt yfir, þarf líka að huga að því hvort jafnræðis sé gætt við úttekt þessa sparnaðar þar sem menn geta í sumum tilvikum tekið út þennan lífeyrissparnað án skattlagningar en í öðrum með fullri skattlagningu.

Ég taldi rétt að minnast á þetta hér við afgreiðslu þessa máls vegna þess að ég tel að þetta sé stórt mál sem við þurfum í framtíðinni að huga að. Að öðru leyti, eins og áður hefur komið fram, þá styðjum við framgang þessa máls.