151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

verðtrygging og verðbólga.

[13:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hún byrjaði á að vitna í mín orð um að við myndum leggja okkur fram um að hlífa fólki við þeim skakkaföllum sem af faraldrinum myndu hljótast og ég hlýt að svara því til hér að það hefur svo sannarlega verið gert. Ég ætla ekki að taka allan tímann í að telja upp allar þær aðgerðir sem hafa falist í því að koma til móts við þau sem hafa misst vinnuna með því að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta, hækka atvinnuleysisbætur, hækka barnabætur og koma til móts við fólk með margháttuðum félagslegum úrræðum til að styðja það í gegnum þennan faraldur. Það hefur svo sannarlega verið okkar leiðarljós alveg frá upphafi að styðja við fólk í gegnum þennan erfiða tíma og það höfum við gert. Ég er ekki í nokkrum vafa um að allar þessar aðgerðir hafa orðið til þess að samdrátturinn hefur orðið minni en spáð var og ég er ekki í nokkrum vafa um að allar þessar aðgerðir verða til þess að við munum spyrna mjög hratt við nú þegar birtir til. Við sjáum að nú birtir til. Fyrirtæki eru farin að ráða fólk í vinnu, átak ríkisstjórnarinnar Hefjum störf gerir það að verkum að fólk sem hefur verið lengi atvinnulaust er farið að fá störf.

Það er alveg rétt að þróun verðbólgunnar hefur verið áhyggjuefni. Það liggur hins vegar fyrir að spár gera frekar ráð fyrir því að verðbólgan hjaðni þegar líða tekur á árið og nýjustu spár gera ráð fyrir því að hún lækki milli mánaða. Við skulum sjá hvort það gengur eftir. Það sem hefur leitt verðbólguna er annars vegar húsnæðisverð og hins vegar matarverð. Ég vil segja hvað varðar fasteignamarkaðinn að þar höfum við verið að glíma við uppsafnaðan framboðsvanda. Það er hins vegar verið að byggja mikið núna og meira á þessum árum en hefur verið gert lengi til að mæta þessum framboðsvanda. Það er mjög mikilvægt að þær aðgerðir sem við höfum ráðist í á þessu tímabili verði til þess að við sköpum aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði því að þessi sveiflukenndi húsnæðismarkaður reynist mörgum erfiður og hefur ekki bara áhrif á verðbólgu og verðtryggð lán heldur líka á leigumarkað (Forseti hringir.) þar sem einmitt margir hinna tekjulægstu eru og eiga allt sitt undir stöðugum leigumarkaði.