151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:13]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari afstöðubreytingu hv. meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í málinu og því framhaldsáliti sem hér liggur fyrir sem tekur þá af allan vafa um að þessum aðgerðum er ekki beint að íslenskum ríkisborgurum sem hyggja á ferðir með flugvélum að utan. Ég vil hins vegar nefna að frumvarpið sjálft og öll þau nefndarálit sem liggja fyrir, upphaflegu nefndarálitin og framhaldsnefndarálitin, eru afskaplega rýr í roðinu þegar kemur að rökstuðningi og upplýsingum um forsendur og markmið með þessu þingmáli. Ég vek athygli á því að langt er síðan þingmálið var lagt fram og aðstæður hafa kannski töluvert breyst á Íslandi frá því að það var gert.

Hér er gert ráð fyrir að þetta frumvarp gildi til loka ársins 2022 og sérstaklega er vísað til skyldna sem lagðar eru á farþega á grundvelli sóttvarnalaga og til reglugerðar sem nýlega var sett, afskaplega tímabundið, um bann við ferðum ríkisborgara þriðju ríkja yfir landamæri. Þetta eru reglur sem gilda bara út maí. Mig langar í því ljósi að spyrja hv. framsögumann hvort það hafi verið rætt í nefndinni, í upphafi eða þegar nefndin fékk þetta aftur til umfjöllunar, því að á þetta hefur verið bent, að gildistími frumvarpsins sé óheyrilega langur, ótæpilega langur, einkum og sér í lagi með hliðsjón af meðalhófsreglum sem er mjög brýnt að menn hafi í huga þegar menn ætla að vísa til einhvers konar bráðaástands eða sérstaks ástands sem hefur skapast vegna heimsfaraldursins.