151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

ástandsskýrslur fasteigna.

98. mál
[15:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég fagna því að málið sé loksins komið á þennan stað í síðari umræðu. Eins hv. þm. Smári McCarthy komst að orði áðan hefur það farið í gegnum nokkra snúninga í þinginu. Einn af snúningunum er vegna nýbygginga og ástandsskýrslna sem eiga að fylgja. Upprunalega var þingsályktunartillagan í því formi sem hún er núna. Meiri hlutinn leggur til að ástandsskýrslur þurfi ekki að fylgja nýjum íbúðum. Hins vegar komu umsagnir um að nýjar íbúðir og nýjar fasteignir væru oft í slæmu ástandi. Eins og komist er að niðurstöðu um hér væri eðlilegt að gera ráð fyrir að öll gögn myndu fylgja með nýbyggingum sem ættu í raun að gegna hlutverki ástandsskýrslu þar sem það á við. Ég fagna því að málið hafi endað á þessum stað og ég hlakka til að sjá afgreiðslu ráðherra á því. Það kemur fram í máli dómsmálaráðuneytisins að ólíklegt sé að endurskoðun þurfi á þinglýsingalögum til að ná markmiðum tillögunnar og það getur vel verið, breytingar á þinglýsingalögum eru nýbúnar að fara í gegnum þingið, þ.e. um rafrænt ferli þeirra. Hér eru fleiri atriði undir en þau lög ná mögulega yfir eins og kaupsamningar og þess háttar. En ef lögin ná yfir þau skjöl líka og farið er í að gera þau ferli rafræn er það bara hið besta mál.

Ég fagna því að málið sé komið á þennan stað því að þetta hefur verið mjög mikið vandamál. Eins og farið var yfir í þingsályktunartillögunni á hún, frá því hún var fyrst lögð fram og þangað til núna, t.d. að geta hjálpað gríðarlega mikið til við mál sem hafa verið samþykkt á þingi um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna endurbóta á húsnæði og þess háttar. Slíkt væri hægt að skrá í viðhaldsdagbók með kvittunum og því um líku og þá væri sjálfkrafa hægt að endurgreiða virðisaukaskatt í staðinn fyrir að fólk þyrfti að fara í gegnum ansi snúið ferli hjá Skattinum til að fá slíkar endurgreiðslur. Það er ekki endilega gagnsæjasta eða aðgengilegasta tækið til að fá rétt sinn hvað það varðar. Ef einfaldlega væri farið í gegnum þinglýsingarferlið eða ferli gagnvart viðhaldsdagbók sem þarna væri þá myndi það gerast sjálfkrafa að fólk fengi þann rétt ef allt væri aðgengilegt og í viðeigandi ferli. Ef maður segði að húsnæði hefði verið uppfært, það hefði verið gert við eða eitthvað svoleiðis og kvittanir hefðu verið lagðar fram, þá rynni það í gegn og virðisaukaskatturinn væri endurgreiddur.

Það myndi auðvelda svo rosalega margt ef ferlin utan um það að kaupa og selja fasteignir og að halda utan um viðhald á fasteignum, og þær aðgerðir sem þingið er oft að leggja til hjálpa þeim ferlum, að það væri er allt rafrænt og aðgengilegt. Ég held að það myndi bæta til langs tíma húsnæðismarkaðinn á Íslandi alveg gríðarlega mikið og veita okkur hér inni miklu meiri upplýsingar um það hvernig staða fasteignamarkaðarins í heild er.

Það sem hér er komið er síðari umræða og svo atkvæðagreiðsla um þingsályktunartillögu um ástandsskýrslur fasteigna. Næsta skref verður síðan að klára lög í kringum þetta og framkvæmdina á þeim lögum þannig að við getum farið að gera betri hluti hér.