151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti og líklegast ekki í síðasta skipti sem ég kem hingað í ræðustól Alþingis og ræði um fjölmiðla, fjölmiðlamarkaðinn og þann ójafna leik sem þar fer fram. Ég gerði það m.a. í desember 2019 þegar sambærilegt frumvarp var lagt hér fram og hef gert það oft áður og síðar.

Það er auðvitað þannig að sjálfstæðir fjölmiðlar standa mjög höllum fæti. Það er líklegast það sem við í þessum þingsal getum verið sammála um. Þeir mega sín lítils og jafnvel einskis gegn þeim forréttindum sem löggjafinn, Alþingi, hefur veitt ríkisreknu fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði. Við þetta bætist alþjóðleg samkeppni frá stórfyrirtækjum sem sjúga ekki bara auglýsingaefni, auglýsingatekjur, heldur ritstjórnarefni úr garði einkarekinna fjölmiðla.

Þegar það frumvarp sem hér liggur fyrir er lesið og nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar má hins vegar greina að skilningur þeirra sem standa að frumvarpinu sé að vandinn sem glímt er við þegar kemur að rekstri sjálfstæðra fjölmiðla liggi í erlendum stórfyrirtækjum og sókn þeirra inn á auglýsingamarkað hér. Það er ekki nema lítið brot af sögunni. Og þegar hálf sagan er sögð, og hún er ekki einu sinni hálfsögð með því, þá vantar svo mikið inn í myndina að það er kannski ekki nema furða að niðurstaðan verði með þeim hætti sem hér er lagt til.

Ég ætla að biðja þingheim að hafa í huga að það sem skiptir sjálfstæða fjölmiðla miklu máli er ekki bara samkeppni á auglýsingamarkaði heldur sú staðreynd að verið er að sjúga burt ritstjórnarlegt efni sem þeir leggja vinnu og kostnað í til annarra miðla og þá ekki síst erlendra samfélagsmiðla. Ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji styðja við bakið á sjálfstæðum fjölmiðlum, meina eitthvað með því að þeir séu mikilvægir fyrir lýðræðið, fyrir opna umræðu, mikilvægir sem aðhald fyrir okkur hér, fyrir framkvæmdarvaldið, fyrirtæki, stofnanir o.s.frv., þá verða menn að hafa burði til þess að reyna að jafna leikinn með raunverulegum hætti. Það er alveg ljóst að rekstrarumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla hér á Íslandi verður ekki heilbrigt fyrr en við tökumst á við umsvif ríkisins í samkeppnisrekstri, höfum burði til þess að skilgreina skyldur og hlutverk Ríkisútvarpsins, fyrst menn á annað borð vilja reka Ríkisútvarpið. Ég hef auðvitað ákveðnar efasemdir um það, sérstaklega á 21. öldinni, en ég átta mig á því að fyrir því er ekki pólitískur stuðningur. Þá er spurningin: Eigum við þá ekki að reyna að jafna leikinn og gera rekstrarumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla heilbrigðara þannig að menn þurfi ekki að búa til flókið millifærslukerfi til að halda þeim við hungurmörk, herra forseti?

Ég skal hins vegar viðurkenna að ég er í pínulítilli valkreppu. Ég er valkreppu vegna þess að það er ekki pólitískur stuðningur hér, það er ekki meiri hluti Alþingis fyrir því að búa til heilbrigt rekstrarumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla og takmarka samkeppnisrekstur ríkisins á þessum markaði eins og við ættum að gera á öllum öðrum mörkuðum. Þess vegna veltir maður fyrir sér: Er svo komið, er maður kominn svo langt upp við vegginn, fast upp við hann, að eini kosturinn sem við höfum, við sem teljum að nauðsynlegt sé að styrkja og styðja við sjálfstæða fjölmiðla, fjölbreytileika þeirra, sé að samþykkja hér einhvers konar millifærslukerfi úr ríkissjóði, svona svipað og þegar menn voru hér með bæjarútgerðir á kostnað sveitarsjóða í gamla daga?

Ég hef orðað það þannig, bæði hér í ræðustól og í greinaskrifum — og þær eru orðnar nokkuð margar greinarnar sem ég hef skrifað um stöðu íslenskra fjölmiðla og stöðu Ríkisútvarpsins sérstaklega — að Ríkisútvarpið nýtur þess að vera í mjúkum og hlýjum faðmi stjórnmálamanna. Forgangsröðunin þegar kemur að fjölmiðlum hér á Íslandi er sú að fyrst skuli tryggja með ráðum og dáð rekstur og framtíð Ríkisútvarpsins og síðan sé rétt að skoða hvort og hvernig vinna megi að því að sjálfstæðir fjölmiðlar lifi af. Lifi af, það er markmiðið. Það er hin pólitíska stefna sem meiri hluti alþingismanna hefur markað, hver með sínum hætti, en enginn orðar það með þessum hætti.

Ef það er vilji stjórnvalda og ef það er vilji okkar hér að styðja við fjölbreytni í fjölmiðlum og búa svo um hnútana að sjálfstæðir fjölmiðlar fái að þrífast og eflast þá komumst við ekki undan því að breyta lögum um Ríkisútvarpið, lögum nr. 23/2013. Og það vill svo til, herra forseti, að síðar í kvöld er á dagskrá frumvarp sem ég hef lagt fram ásamt félaga mínum, hv. þm. Brynjari Níelssyni, sem tekur akkúrat á þeim atriðum sem ég hef gert að umtalsefni, þar sem lagt er til að í tveimur skrefum hverfi Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Fyrsta skrefið verði tekið 1. janúar næstkomandi þar sem takmörkun verði á umsvifum Ríkisútvarpsins, því verði t.d. bannað að vera með beina sölu á auglýsingum, og í ársbyrjun 2023 heyri auglýsingar sögunni til. En strax í ársbyrjun verði Ríkisútvarpinu t.d. bannað að afla sér kostunar á dagskrárliðum. Það eru sirka 2.000 milljónir á ári sem Ríkisútvarpið hefur í þessu. Og Ríkisútvarpið er auðvitað að stunda samkeppnisrekstur, m.a. tækjaleigu. Það ætti kannski að huga að því þó að frumvarpið geri það ekki.

Ég hygg, herra forseti, að skynsamlegt sé að í tengslum við frumvarpið sem við ræðum hér fái frumvarpið sem ég var að gera að umtalsefni og mæli vonandi fyrir á eftir efnislega meðferð í þingsal og síðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd áður en það verður endanlega frágengið og samþykkt við 3. umr. Þó að ég sé ekki að leggja það til hér og nú kann að vera skynsamlegt að þegar allsherjar- og menntamálanefnd hefur fengið frumvarpið um auglýsingar hjá Ríkisútvarpinu, um að draga Ríkisútvarpið á fullu í tveimur skrefum af auglýsingamarkaðnum, kalli hún það frumvarp sem hér er til umræðu aftur til sín og ræði þau saman. Þá er kannski hægt að stíga einhver alvöruskref, þá er kannski hægt að fara að ræða að við séum að búa til einhvern þann jarðveg sem hægt er að kalla sæmilega heilbrigðan fyrir sjálfstæða fjölmiðla til að eflast á komandi árum og þá er hægt að gera sér vonir um það að þessi aðgerð, sem þó er tímabundin sem betur fer — þó að ég deili áhyggjum hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar sem komu fram hér áðan um að það vilji svo til að þegar eitthvað er einu sinni sett á jötuna sé erfitt að taka það af henni. Ég held samt að þá þurfi þingmenn a.m.k. að standa frammi fyrir því að drekka aftur þann kaleik sem við erum greinilega að fara að drekka hér og framlengja þetta viðvarandi ástand. Menn geta komist hjá því.

Það er auðvitað í sjálfu sér óheilbrigt að sjálfstæðir fjölmiðlar séu undir hælnum á fjárveitingavaldinu með þeim hætti sem hér er lagt til. Sá stuðningur mun að öllum líkindum verða til frambúðar, hækka ár frá ári vegna þess að þetta verður svona vanheilagt bandalag annars vegar fjölmiðla og hins vegar stjórnmálamanna þar sem stjórnmálamennirnir munu ná tökum á sjálfstæðum fjölmiðlum. En fjölmiðlar munu líka hafa tök á stjórnmálamönnunum til að fá þá til að hækka alltaf styrkinn vegna þess að þeir þurfa alltaf meira og meira vegna þess að þeir eru orðnir háðir ríkisstyrknum. Og hvernig í ósköpunum ættum við að tala um sjálfstæða fjölmiðla þegar a.m.k. hluti af þeim á allt sitt undir því að ríkissjóður, skattgreiðendur, leggi þeim til rekstrarfé? Ég skal að vísu taka það fram að þetta er nú kannski ekki versta málefni sem styrkt er af ríkissjóði. Það breytir ekki hinu að þetta er óeðlilegt, þetta er óheilbrigt.

Mér finnst við vera í sporum læknis sem horfir á sjúklinginn, finnur meinið en vill ekki skera það burt. Hann vill ekki skera það burt og gefur sjúklingnum bara magnýl eða einhverja verkjatöflu og honum líður betur tímabundið en meinið hverfur ekki. Við erum í sporum þessa læknis sem treystir sér ekki til að ráðast á meinið, skera það burt og gefa sjúklingnum heilbrigt líf til frambúðar. Eins og ég sagði áðan hef ég alla tíð haft efasemdir, og það er kannski jafnvel vægt til orða tekið, um réttmæti þess að ríkið stundi fjölmiðlarekstur og eigi og reki fjölmiðlafyrirtæki. En ég geri mér grein fyrir því að það verður seint sátt um að leggja niður ríkisrekstur á öldum ljósvakans. Ég geri ekki lítið úr einlægri sannfæringu margra sem telja að það sé nauðsynlegt að ríkið eigi og reki fjölmiðil til að standa við bakið á íslenskri menningu, listum, sögu og tungu o.s.frv. Og ég virði þau sjónarmið. En við skulum þá standa að rekstri ríkisfjölmiðilsins með þeim hætti að hann særi ekki og dragi ekki þróttinn úr starfsemi sjálfstæðra fjölmiðla, lítilla og stórra. Ef við erum sammála um að reka hér mynduglega Ríkisútvarpið þá skulum við gera það með þeim hætti að það hafi sem minnst áhrif á starfsemi sjálfstæðra fjölmiðla. Það getum við ekki gert öðruvísi en að draga Ríkisútvarpið að fullu út af samkeppnismarkaði. Þess vegna tel ég að það sé bara skynsamlegt að við reynum að ræða þessi mál samhliða þegar þar að kemur.

Hæstv. forseti. Ég get svo sem haldið hér lengi áfram en ég tel að ég hafi náð að fara yfir flest þau atriði sem lágu mér á hjarta. Mér finnst rétt að ljúka þessu á þessum orðum: Fjölmiðlun sem er fjárhagslega háð ríkisvaldinu með beinum hætti getur ekki verið frjáls nema í orði.