151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[18:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þetta frumvarp er eiginlega skilgetið afkvæmi ríkisstjórnarsamstarfsins vegna þess að það er vandræðalegt og sumum alveg ákaflega sárt. Ég viðurkenni að þegar ég sat undir prýðilegri ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar hér áðan leið mér eins og ég væri að hlusta á þann kafla rokkóperunnar Jesús Kristur ofurstjarna þar sem kristur er í Getsemane-garðinum að rökræða við guð sinn um það hvort hann eigi að drekka eiturbikarinn sem drottinn hefur skammtað honum. Undir lokin gefst hann upp og segir: Já, ég skal drekka þennan bikar. (Gripið fram í.) Það var einmitt þetta sem hv. þingmaður sagði hér áðan, hann sagði: Við munum bergja á þessum bikar. Þannig að þeir Sjálfstæðismenn sem hafa látið sjá sig hér í dag, og guð blessi þá, þeir hafa náttúrlega opinberað hversu vandræðalegt þetta mál er fyrir ríkisstjórnina og hversu vandræðalega er að því staðið.

Málið er, og ég sagði það í 1. umr. um þetta mál, að ég held að það sé ekki einn einasti geiri sem hefur tekið jafn stórstígum breytingum í miðlun upplýsinga, alla vega svo lengi sem ég man. Í dag er einn maður með tölvu orðinn að hlaðvarpi. Hann getur haft áhrif, alveg óendanleg og jafnvel eins mikil áhrif og nokkur hundruð manna fyrirtæki sem er rekið fyrir ríkisfé. Það kemur líka í ljós, einmitt út af þessum tækniframförum, að samkeppnin sem við erum að tala um núna á ekki bara við inn á við, hún er líka út á við. Það eru allir hér að keppa við erlendar efnisveitur og dreifiveitur sem njóta þeirra skattfríðinda að þær borga hér hvorki skatta né laun né neitt slíkt. Það er stórt vandamál. Ég tel að það hefði verið rétt skref að byrja á því að skattleggja þessi alþjóðlegu fyrirtæki sem eru innlendum fyrirtækjum, stórum og smáum, ríkisreknum og ekki, óþægur ljár í þúfu. Í stað þess ákveður ríkisstjórnin, ákveður hæstv. menntamálaráðherra, að byrja á öfugum enda. Það lýsir því kannski best hvað þetta mál er vandræðalegt að þegar ekki áþekk spurning kom upp í andsvari fyrr í dag þá sagði hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem er framsögumaður þessa máls: Ja, maður verður jú að byrja einhvers staðar. Það er alveg rétt og með leyfi forseta þá er líka til málsháttur sem segir að það sé betra að veifa röngu tré en öngu. Málið er að í staðinn fyrir að ráðast að því vandamáli sem skattleysi erlendu samkeppnisaðilanna er segir ríkisstjórnin: Nei, við ríkisvæðum þetta allt. Fjölmiðlamarkaðurinn á Íslandi núna er því að verða eins og draumsýn Marteins Mosdals, bara einn ríkisfjölmiðill í gangi. Og hvað gerist þá? Hér er sagt að þetta sé gert til að varðveita frelsi óháðra fjölmiðla. Það, herra forseti, er algjört öfugmæli vegna þess að ef fjölmiðill, stór eða smár, er orðinn ríkisvaldinu háður mun honum reynast erfitt að bíta í höndina sem fæðir hann. Það er alla vega mjög erfitt í gæludýraheiminum að bíta í hönd sem fæðir mann. Með því móti að þessi angi af starfsemi verði ríkisvæddur erum við þvert á móti að skerða frelsi og frjálsræði fjölmiðla.

Ég held líka — það er alla vega mín trú, hefur reyndar ekki komið fram í umræðunum í dag — að eftir þeim úthlutunarreglum sem eru nú á þeim peningum sem til skiptanna eru hljóti að hafa staðið í einhverjum Vinstri grænum að styðja við auðvaldið á Íslandi með þessum hundruð milljóna króna sem hér renna til stærstu fjölmiðlanna á Íslandi. Það hefur reyndar ekki skotið upp kollinum í þessari umræðu vegna þess að menn láta það yfir sig ganga. Menn kneyfa á bikarnum jafnvel þó að hann kunni að vera eitraður báðum megin frá. Vegna þess að ríkisstjórnin er svona skrýtilega samansett og svona sundurtætt málefnalega taka menn auðveldustu leiðina út. Sjálfstæðismenn þykjast hafa unnið sigur með því að gera úthlutunina tímabundna sem þýðir að þeir sem reka fjölmiðla munu banka á dyrnar aftur eftir einhverja mánuði og bera sig aumlega.

Hv. þm. Óli Björn Kárason sagði í ræðu sinni áðan að á meðan menn hefðu ekki kjark til að breyta leikreglunum á þessum markaði myndi ekki neitt gerast. Það er alveg rétt. Við Miðflokksfólkið höfum lagt fram leið sem gæti líka gagnast þeim stjórnmálamönnum sem þora ekki að taka á þessu máli. Og hver er sú leið? Jú, það er að þeim sem greiða útvarpsgjald verði, til að byrja með, selt sjálfdæmi um það hverjum þeir greiða útvarpsgjaldið sitt. Við höfum áratuga reynslu af þessu vegna annarrar innheimtu sem tilheyrir þjóðkirkjunni. Þeir sem ekki eru þar skráðir geta beint fjármunum sínum annað, hér í denn í háskólann og núna í önnur trúfélög að eigin vali. Eins og ég hef sagt hér áður fæðumst við Íslendingar inn í tvær stofnanir, við fæðumst inn í þjóðkirkjuna og við fæðumst inn í RÚV. Mismunurinn er sá að við getum sagt okkur úr þjóðkirkjunni en verðum að afplána hina vaktina ævilangt. Þetta stóra atriði, og höfuðatriði, er ekki nefnt í frumvarpinu. Uppspretta vandamálsins, ef við getum orðað það þannig, er ekki nefnd í þessu frumvarpi og það er mjög af hinu verra að það skuli ekki vera.

Nú verð ég líka að taka það fram, herra forseti, áður en lengra er haldið, af því að hér steig á stokk í dag ágætur hv. þingmaður Samfylkingarinnar og talaði um minni hluta þegar hann var að lýsa áliti því sem hann talaði fyrir, að ég er ekki hluti af þeim minni hluta sem sá ágæti þingmaður talaði um hér í dag. Ég tel, eins og félagar mínir, að við eigum að ganga þannig fram að við eigum að leyfa áskrifendum að ákveða sjálfir hvert peningarnir fyrir útvarpsgjaldið renna. Hvort menn vilja láta það renna til Stundarinnar eða Morgunblaðsins eða Kjarnans eða hvað sem er eða síns héraðsfréttablaðs, það skiptir ekki máli. Það er þannig núna, held ég, að RÚV er eina fyrirbærið á Íslandi, hugsanlega í öllum heiminum, sem kemst upp með að halda á kökunni og éta hana líka. Menn eru svo gulltryggðir þar á bæ, það kom vel fram í síðustu fjárlagaumræðu og afgreiðslu. Það var ekki ein heldur tvær tillögur sem komu fram í meðferð þingsins á fjárlögum sem beindust að því að liðka fyrir fjárhag RÚV. Það virðist ekki ætla að duga til vegna þess að það ágæta félag er rekið með 200 millj. kr. tapi að því er sagt er. Það bætir ekki úr skák, herra forseti, — vegna þess að ekki þýðir að benda bara fingrum á RÚV og gagnrýna það félag — að það er líka rekstrarfyrirkomulagið sem er gagnrýnivert. Það er vegna þess að illu heilli tókum við þingmenn þá ákvörðun á einhverjum tímapunkti að breyta ríkisstofnuninni RÚV í opinbert hlutafélag og eins og hefur gerst víðar þar sem opinber hlutafélög eru stofnuð þá fer eftirlitið meira og minna veg allrar veraldar og fyrirtækin bara rúlla áfram, stjórnlítið að því er virðist. Við höfum fleiri dæmi eins og ég nefndi og kannski er það eftirtektarverðasta, sem nú er verið að reyna að laga til, Pósturinn ohf.

Þannig að spurningin er: Hvað ætlum við þá að gera, frú forseti, þegar við stöndum frammi fyrir svipuðum aðstæðum og eru á fjölmiðlamarkaði? Og nú langar mig til að draga fram að menntamálaráðuneytið og ríkisstjórnin eru nýbúin að leggja opinberum menntastofnunum af öllum sortum til fé vegna erfiðs rekstrar en allir einkareknir skólar, námskeiðahaldarar og fleiri fá ekki krónu, frú forseti. Þeir fá ekki eina einustu krónu og bara þetta eina atriði út af fyrir sig skekkir rekstrargrundvöll þeirra verulega. Ef þetta verður fordæmið, að ríkisvæða allt þar sem menn standa höllum fæti út af því að stór ríkisstofnun eða stórt ríkisvald eða batterí hefur ofurstöðu á markaði, þá kannski styttist í að við ríkisvæðum líka alla sem halda námskeið á Íslandi, Dale Carnegie og Mími og hvað þeir nú heita allir, og vinna gott verk, í staðinn fyrir að reyna bara að sjá til þess að það sé rétt gefið. Eins og fleiri sem hér hafa talað í dag óttast ég að þrátt fyrir þann „áfangasigur“ Sjálfstæðisflokksins að tímabinda þessa ráðstöfun horfum við fram á að þetta verði eilífðarvél og að við höldum áfram að gusa peningum inn í fjölmiðlaumhverfið um ókomin ár. Sú upphæð hlýtur að hækka eins og allt annað sem er fjárhag undirorpið á Íslandi. Þess vegna segi ég: Þetta mál er vont og það hefur ekki batnað við það að dvelja í nefnd í tvo, þrjá mánuði, eða hvað það er orðið. Það hefur ekkert batnað vegna þess að ekki er farið í grunnvandann.

Ég fékk ágætissendingu í dag þar sem ágætur maður segir, með leyfi forseta: „Hér er einfaldlega verið að setja fjölmiðla í öndunarvél án þess að takast á nokkurn hátt á við vandann sem tengist frjálsri fjölmiðlum.“ Það er alveg hárrétt. Og það sem stendur einkum upp úr er tvennt, annars vegar ryksuguáhrifin af erlendum fjölmiðlum og dreifiveitum sem soga auglýsingafé út úr landinu og hins vegar það ægivald sem Ríkisútvarpið hefur. Síðan á að fara að gera Ríkisútvarpið enn þá ósamkeppnisfærara með því að innleiða einhverja Evróputilskipun þar sem áskilið er að 30% af efninu, af öllum sortum, skuli vera evrópskt. Ég held að ég hafi lesið það einhvers staðar um daginn að ágætur maður sagði að þetta væri leið stjórnmálamanna til þess að fullvissa sig um það að þjóðinni leiddist, og ekki bara lítið heldur alveg helling. Á þessum tímum þegar frjáls fjölmiðlun ætti í raun og veru að geta blómstrað af því að einn maður með tölvu er orðinn hlaðvarp og getur haft mikil áhrif, eins og ég sagði áðan, það er ekki mikill kostnaður nema einhver reyni að stíga ofan á honum og stappa ofan á honum eins og tækifæri eru til í dag.

Frú forseti. Það verður aldrei friður um úthlutun á fjármunum af þessu tagi, aldrei nokkurn tímann. Allir þeir sem ekki fá eða fá munu rífast um það og þeir munu benda á að einhver hafi fengið meira heldur en honum beri og aðrir miklu minna. Það verður aldrei friður um þessa úthlutun nokkurn tíma. Upp úr þessu frumvarpi höfum við það að við erum búin að smíða eilífðarvél sem dælir peningum úr ríkissjóði, væntanlega næstu árin eða áratugina. Við höfum það upp úr þessu að það verður engin sátt, hvorki milli fjölmiðla eða um fjölmiðla. Það er það sem við höfum upp úr þessu frumvarpi. Það er verulega sárt þegar lausnin sem ég benti á hér áðan, sem við Miðflokksmenn höfum talað fyrir, er að menn fái að kjósa með fótunum, menn fái að ráða því sjálfir, Íslendingar fái að ráða því sjálfir í hvað þessi nefskattur, ef hann á annað borð á að vera hér, getur farið eða á að fara. Það er mjög einföld aðgerð, frú forseti, og með henni er sett smábytta undir þann leka stjórnmálamanna sem þora ekki að takast á við vandamálið með því að útvista því til þeirra sem nýta eða njóta eftir atvikum. Mjög einfalt.

Ég get líka tekið undir það þegar menn segja: Þurfum við að hafa hér ríkisútvarp? Og menn tala gjarnan um að það sé gott að halda á lofti menningunni, sem er alveg hárrétt. Ég ætla líka að segja það hér að Ríkisútvarpið hefur heldur ekki að mínu áliti staðið undir þeim kröfum sem til þess eru gerðar um annars vegar svokallað öryggishlutverk og hins vegar menningarhlutverk. Því miður verð ég að segja það, t.d. vegna þess að auðvitað ætti Ríkisútvarpið að vera í fararbroddi fyrir góðu tungutaki, meðferð á íslensku máli, en því miður hefur sigið á ógæfuhliðina þar. Ég hef sagt sjálfur og ég get alveg staðið við það að ég held að ríkið þurfi t.d. ekki að reka sjónvarpsstöð þegar við höfum dreifiveitur sem dreifa alls konar afþreyingarefni, ég tala nú ekki um ef ríkinu verður gert að versla 30% efni sem er misleiðinlegt einhvers staðar til að viðhalda því að okkur stökkvi ekki bros á vör. Þetta mætti sem best selja.

Aftur á móti er ég ósammála þeim sem segja að einungis Rás 1 gegni menningarhlutverki. Rás 2 hefur gríðarlegt menningarhlutverk líka og hefur t.d. safnað saman á einn stað tónleikum og tóndæmum með íslenskri alþýðutónlist alveg frá 1985 eða 1983, hvenær sem þessi rás var stofnuð. Það eru ekki síðri menningarverðmæti heldur en Passíusálmarnir eða frumflutningur á verkum eftir Pál Ísólfsson heitinn, með mikilli virðingu. Jú, það væri ágætt að hafa stofnun til að sjá um og til að halda utan um þennan arf en ég er ekki einn af þeim sem held því fram að ríkið þurfi að reka sjónvarpsstöð. Ég er reyndar heldur ekki á því að ríkið þurfi að reka fréttastofu. Menn tala um BBC og fleiri stöðvar en Ríkisútvarpið á Íslandi er bara ekki BBC og þær fréttastofur ríkis sem ég man best eftir úr fortíðinni eru Novosty og fleiri slíkar (Forseti hringir.) sem voru í Ráðstjórnarríkjunum. Við þurfum ekki slíka fréttastofu.