151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[18:41]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Tilgangurinn með því frumvarpi sem hér er til umræðu er að koma á fót stuðningskerfi fyrir einkarekna fjölmiðla. Maður veltir fyrir sér hvers konar framtíðarsýn stjórnvöld hafa um fjölmiðla og fjölmiðlakerfið. Hér á sem sagt að gera þá fjölmiðla sem við köllum stundum sjálfstæða fjölmiðla háða ríkisvaldinu. Þá myndi einhver segja: Hvers konar sjálfstæði er það? Það er ekki merkilegt sjálfstæði í mínum huga. Það að þingmenn séu á þeim stað að fjölmiðlamarkaðurinn eigi að vera með þeim hætti að hann sé allur háður ríkisvaldinu er mjög sérstakt. Við vitum auðvitað alveg hver vandinn er. Við vitum það og okkur finnst það flestum allt í lagi að á þessum markaði einum nánast sé ríkið ráðandi aðili, að öllum hefðbundnum samkeppnisreglum sé vikið til hliðar þegar kemur að fjölmiðlamarkaðnum. Ég efast um að við myndum sætta okkur við þetta fyrirkomulag á einhverjum öðrum markaði. Tæplega, ég efast um að menn gætu sætt sig við það. Ég held að það sé algerlega ljóst að þegar við erum búin að koma þessu á, þó að í þessu frumvarpi sé gert ráð fyrir að það sé tímabundið, verður ekki horfið frá því nema að segja þá um leið við þessa einkareknu fjölmiðla: Þið verðið bara að fá að deyja.

Það er enginn áhugi á að leysa hinn raunverulega vanda á þessum markaði. Við erum að fara 50 ár, 60 ár aftur í tímann með því að búa kerfi til þar sem er greitt úr ríkissjóði til að halda einhverjum rekstri lifandi. Það gengur aldrei til frambúðar. Við höfum reynslu af því. Við höfum reynslu af því í ýmsum rekstri um og eftir miðja síðustu öld. Við verðum að koma á eðlilegum fjölmiðlamarkaði, alveg eins og á öllum öðrum markaði þar sem eðlileg samkeppni þrífst og þeir sem spila á þeim markaði standa nokkurn veginn jafnt að vígi. Það er ekki gert hér, alveg fjarri lagi. Við höfum aldrei haft kjark eða þor í að endurskoða hlutverk Ríkisútvarpsins, í fyrsta lagi hvort það eigi einhvern rétt á sér í nútímasamfélagi að ríkið sé í slíkum samkeppnisrekstri. Og ef menn telja, eins og margir gera, að mikilvægt sé að ríkið sjái um einhvers konar menningarstarfsemi af þessu tagi þá þarf að skilgreina það nákvæmlega en láta það ekki bara ráðast svona, að Ríkisútvarpið fái marga milljarða á ári, sé ráðandi á markaði og sé í samkeppni við aðra um auglýsingatekjur o.s.frv. Þetta er óeðlilegt og það sjá það allir. Af hverju er ekki hægt að breyta þessu? Það er eins og mörgum hér finnist að Ríkisútvarpið sé einhvers konar heilög kýr sem engar venjulegar reglur eigi að gilda um, enginn eðlilegur markaður eigi að vera í kringum fjölmiðla. Við viljum bara hafa þetta Ríkisútvarp hvað sem tautar og raular. Og ef aðrir geta ekki lifað með því þá bara borgum við það líka úr ríkissjóði. Þetta er framtíðarsýn flesta stjórnmálamanna hér á landi. Hún er auðvitað hræðileg. Mönnum finnst sem sagt í lagi að Ríkisútvarpið fái skattfé en sé samt í samkeppni — og til að halda lífi í einhverjum sem verða alltaf einhverjir fá þeir stuðning úr ríkissjóði. Svo er búið til kostnaðarsamt kerfi í kringum það í frumvarpinu. Starfsmenn, skrifstofa, farið yfir umsóknir, einhverja tugi milljóna mun það kosta á hverju ári.

Ég velti því mikið fyrir mér af hverju afstaða margra til Ríkisútvarpsins er með þeim hætti að mönnum finnst þetta fyrirkomulag í lagi. Í raun og veru hefur okkur í öllum aðalatriðum tekist að skilja að ríki og kirkju. Okkur hefur tekist það. En að skilja Ríkisútvarpið eða ljósvakamiðilinn frá ríkinu, það virðist vera algerlega ómögulegt, það er eins og himinn og jörð farist. Menn verða að athuga það að fjölmiðlaumhverfi í dag er allt annað heldur en þegar menn komu á ríkisfjölmiðli, ljósvakamiðli víða um heim við þær aðstæður sem þá voru. Það var mjög skiljanlegt á þeim tíma. En við erum enn þá föst í því að ríkisfjölmiðillinn verði að vera áfram þó að við vitum að það verði aldrei heilbrigður markaður í fjölmiðlarekstri. Mönnum er alveg nákvæmlega sama þó að það verði aldrei heilbrigður markaður hér, alveg sama þó að dælt sé meira og meira úr ríkissjóði í ríkisfjölmiðilinn. Svo á núna að fara að dæla meiri peningum til þess að halda á lífi í einhvern tíma einkamiðlum sem menn ætla að kalla sjálfstæða miðla en verða auðvitað aldrei sjálfstæðir við það. Svo eru menn einhvern veginn svo bláeygir að halda að þetta gæti bara orðið tímabundið. Það verður auðvitað aldrei. Þegar sólarlagsákvæðið rennur út eftir eitt eða tvö ár og stjórnmálamenn segja: Nei, þetta var bara tímabundið — halda menn þá að stjórnmálamenn standi í lappirnar og segi: Já, heyrðu, þetta var bara tímabundið, það verður ekki meira? Ó nei, það verður ekki þannig.

Við verðum að hafa kjark og þor í að endurskilgreina hlutverk RÚV úr því að menn eru ekki tilbúnir að leggja það af sem er auðvitað bara tímaskekkja í nútímasamfélagi. Ég geri mér grein fyrir að ekki er hlaupið að því, alla vega ekki í einu vetfangi, að skilgreina hvert hlutverk þess er, hvað er ekki í beinni samkeppni, meta hvað það kostar og leyfa svo öðrum miðlum að keppa á hinum eiginlega markaði. Ég veit auðvitað að vandinn er djúpstæðari en bara það. Við erum í vanda með erlenda samfélagsmiðla, það sem þeir taka upp úr íslenskum miðlum, auglýsingar þaðan o.s.frv. Það virðist ekki vera mikil hugsun hvernig við getum glímt við þann vanda. Þetta frumvarp mun engan vanda leysa, ekki til frambúðar. Það munu aldrei verða hér sjálfstæðir fjölmiðlar og eðlilegur fjölmiðlamarkaður með þessu fyrirkomulagi, bara aldrei. Þetta held ég að allir viti en samt ætla menn að fara þessa leið. Ég legg til að menn skoði þetta betur, að menn fari einfaldlega yfir allan þennan ríkisrekna fjölmiðlamarkað sem hefur truflað mig mjög lengi. Það fyrirkomulag sem nú er til staðar er löngu úrelt en einhverra hluta vegna myndast aldrei pólitískur meiri hluti fyrir því að gera eitthvað í því máli. Þetta er einhvern veginn sálrænt. Það er eins og verið sé að glíma við sama sálræna vandamálið og það að menn geta ekki hugsað sér að einhver annar selji áfengi heldur en ríkisstarfsmaður. Þetta er auðvitað sama heilkennið. Einhvern tímann þegar öll rök þrýtur fyrir rekstri Ríkisútvarps munu menn örugglega bara koma með lýðheilsusjónarmið því að það dugar alltaf, að lýðheilsa þjóðarinnar verði mjög slæm ef RÚV hættir.

Með ohf.-fyrirkomulaginu lítur þetta út eins og einkafirma einhverra starfsmanna sem gera það sem þeim sýnist. Það er engin stjórn þótt þetta sé ríkisútvarp. Það er bara einhver sjálfstæð stjórn, eitthvert fólk sem við höfum ráðið og við höfum ekkert með það að gera. Menn gera bara það sem þeim sýnist, fara bara að lögum þegar þeim sýnist og ekkert gerist. Stjórnmálamenn eru raunverulega algerir aumingjar þegar kemur að þessu þó að þetta séu margra milljarða útgjöld á hverju einasta ári. Við bara horfum á þetta gerast. Okkur er nákvæmlega sama af því að flestum okkar finnst svo helvíti gott efni þarna og við erum vön því að hafa þetta, það hefur alltaf verið þarna. (Gripið fram í: … Barnaby?) Menn velta því fyrir sér og horfa á þetta. Ég sé alla vega engan mun á þáttum þar og þáttum sem ég sé á N4 eða Hringbraut eða Stöð 2 eða hvað það heitir allt saman. Þetta er auðvitað bara löngu úrelt en við getum ekki tekið á því.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera lítið úr því að ríkið gæti séð um eitthvert menningarhlutverk, eitthvað sem setur skyldur á ríkismiðillinn umfram aðra. En þá sinna menn því eingöngu. En að vera bara eins og venjulegur fjölmiðill og brengla allan markaðinn og gera alla aðra fjölmiðla ósjálfbæra er óeðlilegt. Við myndum aldrei sætta okkur við svona í einhverjum öðrum rekstri en í ljósvakamiðlum erum við alveg föst í þessu. Hvað myndu menn segja hér ef það væri ríkisverslun með einhverjar vörur sem fengi alltaf X háa fjárhæð á hverju ári og gæti þá haft áhrif á verðið og allt það og auglýst meira af því að það væri allt niðurgreitt. Svo væru menn að keppa á markaði. Sama fólkið sem er sérstakir stuðningsmenn þess að Ríkisútvarpið brengli allan þennan markað og finnst það bara allt í lagi er mjög upptekið af öllum samkeppnisreglum þegar kemur að öðrum rekstri, en ekki þessum. Það er útilokað fyrir nokkurn heilbrigðan mann að skilja þetta. Ég mun aldrei skilja þetta.

Svo heldur þetta fólk að það sé líka nútímalegt. Það er ekkert nútímalegt við að ríkið standi í þessum rekstri, það er bara alls ekkert nútímalegt við það. Þetta er í raun og veru úrelt. Þetta er úrelt kerfi, þetta er úrelt fyrirkomulag, löngu úrelt meira að segja, búið að vera úrelt í meira en 20 ár. Samt er það eins og að rífa úr fólki hjartað að minnast á að við þurfum auðvitað að fara að endurskoða þetta. Við þurfum að endurskoða hlutverk Ríkisútvarpsins. En það tekst aldrei. Það fer allt í lás hér, alveg eins og þegar við ætlum að heimila sölu á áfengi sem er lögleg vara. Ríkisstjórnin getur ekki einu sinni leyft okkur að fá nikótínpúða, það er búið að setja einhver lög og reglur um það. Á sama tíma er þetta fólk að heimila hér neyslu á ólöglegum efnum og biðja um neyslurými fyrir það. Hvert erum við komin? En það má enginn annar en ríkisstarfsmaður selja áfengi. Það er ekki nema von að menn klóri sér í hausnum.

Auðvitað breytist ekki neitt meðan samsetning þingsins er með þessum hætti. Ef kjósendur kjósa ekki frjálslynd borgaraleg lýðræðisöfl sitjum við uppi með þetta óbreytt langt fram í framtíðina. Meira að segja Miðflokkurinn er orðið frjálslynt lýðræðisafl þegar kemur að þessu. (ÞorS: Forgöngumenn.) Sporgöngumenn? (ÞorS: Forgöngumenn.) Forgöngumenn? (ÞorS: Frumkvöðlar?) Miðflokkurinn verður nú aldrei frumkvöðull. Nei, við þurfum breytta hugsun í þessu. Ríkissjóður er ekki óþrjótandi auðlind. Við getum ekki bara gert hvað sem okkur sýnist. Við verðum að koma á heilbrigðum markaði. Ég geri mér grein fyrir því að það er alltaf erfiðara í fámenni, í svona litlu samfélagi. En heimurinn er stór og fjölmiðlar eru ekki bundnir við lönd lengur, það er margt í boði. Ég gæti alveg sætt mig við að ríkið sinnti mjög takmörkuðu menningarlegu hlutverki til að vernda íslenska tungu og menningu, menningarlegt efni, eitthvað sem varðar okkar arfleifð. En það er óþarfi að vera í því sem þeir eru núna. Mér finnst skrýtið að við séum ekki öll sammála um að reyna þá að takmarka þetta við algerlega afmarkað hlutverk. Einhverra hluta vegna erum við föst í þessu og við komumst ekki úr þessu. Við ætlum að búa til eitthvert kerfi sem aldrei verður sátt um, aldrei. Menn munu rífast um þessar úthlutanir, verða ósáttir við að vera ekki inni o.s.frv. Þetta skapar bara óeiningu. Við ætlum að fela einhverju fólki að ákveða hver fær peninga og hver fær ekki peninga. Hvernig haldið þið að þetta verði, hv. þingmenn? Það verða leiðindi, alveg eins mikil og hægt er að hafa þau. Það mun eingöngu leiða til þess á endanum að það verður bætt í og bætt í. Þá þarf að skattleggja og skattleggja. Og menn halda að það hafi engar afleiðingar af því það er nóg til einhvers staðar í samfélaginu. Þetta er umræðan í samfélaginu: Það er nóg til. Þegar menn hugsa svona, að það sé nóg til, þá endar það alltaf illa, alveg örugglega.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið ræðu minni.