151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. forseta. Þegar skilaboð bárust eftir lok tíundu viku, sem er sá tími sem alla jafna er gefinn til að skila slíkum skýrslum, um að það þyrfti að afmarka skýrslubeiðnina betur, steig forseti fljótt og vel inn í það. Síðan eru liðnar aðrar tíu vikur og frýjunarorð mín hér voru svo sem ekki önnur til forseta en að hann aðstoðaði áfram og beitti sér fyrir þessu máli, þau fólu ekki í sér neinn dóm um að hann hefði ekki gert það hingað til, það gerði hann á þennan hátt sem ég hef lýst hér. En það breytir því ekki að það er liðinn vel ríflega tvöfaldur tími þannig að kannski er komin ástæða fyrir hæstv. forseta að stíga inn í aftur, mögulega þarf það að gerast á tíu vikna fresti um ófyrirséða framtíð. En við sjáum til með það.