151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það kom mörgum á óvart að Ríkisútvarpið skyldi ekki vera nefnt einu orði í því máli sem hér liggur fyrir og ég fagna tillögu Miðflokksins um að málið sé kallað til nefndar milli 2. og 3. umr. Það var reiknað með að einhverjir aðrir hefðu komið fram með þá tillögu ef hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hefði ekki gert það. Það verður að ræða þau þrjú mál sem eru til umfjöllunar í nefndinni heildstætt til að fá einhvern vitrænan botn í þetta mál. En ég vil benda sérstaklega á fjórða atriðið sem nefndin verður að koma inn á, sem er þingmannanefndin um málefni RÚV sem í sitja hv. þingmenn Kolbeinn Óttarsson Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Páll Magnússon. Hv. þm. Páll Magnússon kom inn á það hér áðan að nú gæfist vonandi tími til að sú nefnd myndi ná að ljúka sínum störfum áður en þetta mál væri afgreitt. Það verður ekki skilið öðruvísi en svo að tillaga sé um að þetta mál komi hér til 3. umr. undir blálok þessa þings. Það er augljóst að ekki er verið að horfa á þann tímaramma sem sólarlagsákvæðið tekur til vegna þess að a.m.k. tveir af þremur þeirra þingmanna sem eru í þingmannanefndinni sækjast ekki eftir endurkjöri. Það hlýtur því að vera í tengslum við það þing sem nú er yfirstandandi.