151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

flugvallarstæði í Hvasshrauni.

[13:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem gefur gott tilefni til að setja málið í rétt samhengi. Stjórnvöld eru ekki að undirbúa uppbyggingu á nýjum flugvelli í Hvassahrauni. Hins vegar hafa skýrslur margra liðinna ára bent á Hvassahraun sem líklegastan kost, komi til þess að flytja þurfi Reykjavíkurflugvöll. Við höfum verið sammála um það, að undangengnum ákveðnum rannsóknum, að verði það niðurstaðan — sem ég get auðvitað ekki gefið mér fyrir fram. Til stóð að fyrsti fasi tæki í það minnsta tvö ár og síðan í framhaldinu framhaldsrannsóknir sem væru rannsóknir á veðri, á flughæfni, á atriðum sem lúta að vatnsvernd, aðkomu sveitarfélaganna á Suðurnesjum og fleiri þáttum, en fyrst og fremst væri nýtt áhættumat, sem sagt jarðfræðilega. Það er fyrsti áfanginn í þessum rannsóknum. Ég hef einfaldlega sagt: Er ekki skynsamlegt að fá það áhættumat? Það var búið að gera samning við Veðurstofuna bæði um veðurmælingar og fleiri þætti sem og áhættumat. Það verður væntanlega tilbúið um áramót ef ekki verða tafir á því vegna anna sérfræðinga okkar hjá Veðurstofunni við að kljást við jarðhræringar einmitt á Suðurnesjum, á þessu svæði. Er ekki skynsamlegt að fá það áhættumat, hv. þingmaður, hérna inn áður en við förum einhliða að taka ákvarðanir sem okkur finnst vera skynsamlegar, að það sé ekki skynsamlegt að fara að byggja flugvöll á svæði sem hugsanlega á næstu áratugum verður svæði umbrota, jarðhræringa eða jarðskjálfta? (Forseti hringir.) Er ekki skynsamlegt að fá áhættumatið? Það var það sem ég nefndi í svari mínu við hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson og get ítrekað hér, að mér finnst það skynsamlegt. (Forseti hringir.) Þá getum við tekið ákvörðun með upplýstum hætti.