151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:21]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum frá félags- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, liggur nú fyrir í velferðarnefnd. Í því felst að barnaverndarnefndir verða lagðar af og umdæmi barnaverndarþjónustu stækkuð. Jafnframt eru lagðar fram ýmsar breytingar til hagsbóta. Þessar breytingar eru sprottnar upp úr breytingum sem eiga sér stað við samþættingu á barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna, frumvörpum sem félags- og barnamálaráðherra hefur einnig lagt fram á yfirstandandi þingi. Þessar breytingar fela í sér fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga. Þær breytingar á barnaverndarlögum sem liggja fyrir byggja á miklu samráði og undirbúningi sem staðið hefur allt kjörtímabilið. Samráð hefur verið haft við sveitarfélögin frá fyrsta stigi hugmyndanna auk þess sem þjónustuveitendur og þjónustuþegar hafa komið að borðinu.

Með því að samþykkja þetta frumvarp er verið að gera miklar og umtalsverðar breytingar á umhverfi barnaverndar í sveitarfélögum en þau bera ábyrgð á þessum málaflokki. Í dag eru 27 barnaverndarnefndir staðsettar vítt og breitt um landið. Lágmarksíbúatala á bak við hverrar barnaverndarþjónustu er miðuð við 1.500 manns. Við þessar breytingar hækkar það lágmark upp í 6.000 manns auk þess sem gert er ráð fyrir að sett verði á stofn umdæmisráð barnaverndar sem hafi aðkomu að tilteknum ráðstöfunum barnaverndarþjónustu og gert er ráð fyrir að umdæmisráðin séu sérstakar og sjálfstæðar, fjölskipaðar stjórnsýslueiningar á vettvangi sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða grundvallarbreytingu á umgjörð og samsetningu barnaverndarnefnda. Í frumvarpinu felst m.a. að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Því er hér um að ræða mestu breytingar sem ráðist hefur verið í síðustu áratugi. Þetta frumvarp er líka partur af miklum breytingum á kerfinu sem ætlað er að gefa færi á samþættingu barnaverndarþjónustu sem veitt er í þágu barna. Hér er því verið að svara þeirri gagnrýni sem verið hefur á umhverfi barnaverndar hér á landi í fjölda ára og mikilvægi þess að færa það til nútímavitundar um réttindi barna. Ég vona að við séum öll sammála um að klára þetta.