151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að ræða aðeins öldrun þjóðarinnar og andvaraleysi ráðamanna í þeim efnum. Þjóðin er að eldast hratt, t.d. mun þeim sem eru 80 ára og eldri fjölga um helming á næstu 15 árum. Fólk lifir mun lengur nú en fyrir nokkrum áratugum síðan og meðalaldur hefur stöðugt farið hækkandi hér á landi. Eldra fólk býr einnig að jafnaði lengur við betri heilsu en áður og fjölmargir hafa góða heilsu til að njóta lífsins á þessum aldri. En þegar kemur að því að fá notið umönnunar og þjónustu eftir langa starfsævi stendur ríkisvaldið sig ekki. Illa gengur að vinna á biðlistum í hjúkrunarrými og kröfurnar til þeirra sem þangað geta leitað virðast mörgum illskiljanlegar. Hjúkrunarheimilin eru nú að þjónusta mun veikara fólk en fyrir fáeinum árum síðan.

Stjórnvöld hafa um árabil þverskallast við að semja um eðlilegt gjald fyrir þjónustu rekstraraðila hjúkrunarheimila þrátt fyrir að hafa allar kröfur um aðbúnað og þjónustustig í eigin hendi. Afleiðingar þessa reiptogs eru að koma í ljós. Sveitarfélögin eru hvert á fætur öðru að skila rekstrinum aftur til ríkisins eftir að hafa neyðst til að fjármagna hann um árabil en eru nú búin að fá nóg, enda málaflokkurinn í hendi ríkisins en ekki þeirra. Í fjáraukalögum er sá plástur sem ríkisvaldið réttir inn í rekstur hjúkrunarheimila 1 milljarður, á meðan þörf er á margfaldri þeirri upphæð bara til að rétta af margra ára fjárvöntun. Fjárlaganefnd hefur viðurkennt vandann en ekki brugðist nægilega við. Bíða á eftir fleiri skýrslum, gera á fleiri úttektir, skipa á fleiri starfshópa. Á meðan mun vandinn bara vaxa. Er einhver áætlun um hvernig tekið verður á þessum vanda? Er kannski enginn vilji? Nei, svo virðist ekki vera, hvorki í þeim fjölda hjúkrunarrýma sem við þurfum að reisa á næstu örfáum árum né til að koma rekstri hjúkrunarheimila í viðunandi horf. Er ekki löngu kominn tími til að móta fullburða stefnu í þessum málaflokki, herra forseti?

Það bætist sífellt í þau verkefni sem þessi ríkisstjórn ætlar að framselja til næstu ríkisstjórnar. Ef til vill verður þessi ríkisstjórn þekktust fyrir að fresta öllum vandamálum, afgreiða bara gæluverkefnin. Allt annað á að gera seinna, á næsta kjörtímabili. Þau verða ærin verkefnin fyrir næstu ríkisstjórn.