151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna og að hafa verið með svona þröngan og skýran fókus á geðheilbrigðismál í ræðunni. Við ræðum þau sannarlega ekki of oft hér í sal. Mig langar aðeins að velta einu upp með þingmanninum. Í upphafi kjörtímabils var boðuð endurreisn heilbrigðiskerfisins og vissulega hefur margt unnist en allt of fátt engu að síður. Geðheilbrigðismálin hrópa á okkur sem einn af þeim málaflokkum sem ekki hefur náðst að stíga nógu stórt skref í.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í einn anga þeirra mála sem hefur verið í fréttum undanfarið, sem er meðferð við átröskun. Við þekkjum það að fyrir þremur árum þurfti átröskunarteymi Landspítalans að flýja Hvítabandið vegna mygluvanda í húsnæðinu og hefur síðan verið á hrakhólum í ókláruðu bráðabirgðahúsnæði á Kleppi. Ég efast um að nokkur annar sjúkdómur hefði verið látinn búa við annan eins húsnæðisvanda nema geðsjúkdómur sem leggst þar að auki einna þyngst á ungar konur. Ég held að þarna séum við að horfa framan í tvöfalda fordóma í kerfinu. Eins og kom fram í svari hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur fyrr á árinu er átröskunarteymið í dag fjórðungi minna en það var fyrir fimm árum. Það er, eins og ég segi, í húsnæðisvanda eftir að hafa þurft að flýja myglu. Fjöldi fólks á biðlista hefur sjöfaldast á fimm árum. Flest þessara fimm ára eru það kjörtímabil sem fer nú að ljúka og staðan er sú að bið eftir meðferð hjá átröskunarteymi Landspítalans hefur farið úr tveimur til fjórum mánuðum árið 2017 upp í 18–20 mánuði núna. (Forseti hringir.) Ég spyr: Hvað segir þessi forgangsröðun okkur?