151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Þetta er stutt og laggott nefndarálit frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og barst ein umsögn frá Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Tilgangur þess er að takmarka rétt þingmanna til endurgreiðslu ferðakostnaðar í aðdraganda kosninga til Alþingis. Í umræddri umsögn frá Öldu er lýst yfir eindregnum stuðningi við frumvarpið.

Nefndin fjallaði um þetta mál og skoðaði og er kannski ágætt að rifja upp að málið er unnið í samkomulagi flestra nefndarmanna í forsætisnefnd, ekki þó allra. Hygg ég að einhverjir muni gera grein fyrir þeim ágreiningi í ræðum. En meiri hluti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leit svo á að það væri mikilvægt að viðhalda samkomulagi um þetta frumvarp og fylgja því alla leið þó að sum okkar hefðu kannski þær skoðanir að nýta hefði mátt ferðina til að gera eitthvað meira í þeim efnum, breyta á einhvern annan hátt lögum um þingfararkaup alþingismanna.

Sjálfur hefði ég alveg verið til að skoða hluti í því en hvorki gafst tími til þess né taldi ég, í það minnsta, að rétt væri að gera það núna og að mikilvægt væri að halda þessari samstöðu í gegnum málið, enda er málið býsna gott og gott að við náðum saman um það. Þess vegna lagði meiri hlutinn til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson skrifaði undir álitið með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu, en annars skrifa undir þetta stutta og laggóða nefndarálit, ásamt þeim sem hér stendur, hv. þingmenn Jón Þór Ólafsson, Andrés Ingi Jónsson, með fyrirvara, Guðmundur Andri Thorsson, Hjálmar Bogi Hafliðason og Líneik Anna Sævarsdóttir.