151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur er ekki meðflutningsmaður á þessu nefndaráliti og sá sem hér stendur er ekki hlynntur þessu máli eins og það er umbúið hér. Ástæðan er ekki sú að ég eða annað Miðflokksfólk viljum ekki jafna þann aðstöðumun sem er á milli sitjandi þingmanna og þeirra sem berjast fyrir því að komast á þing hið fyrsta sinni. Eins og málið er umbúið þá skilur það eftir einn hóp sem mun hafa gríðarlegan aðstöðumun í komandi kosningum og það eru ráðherrar. Því hefur verið flaggað hér, m.a. af forseta þingsins þegar þetta mál var lagt fyrir, að það lægi fyrir bréf frá tveimur ráðuneytisstjórum um að reglur um ferðakostnað ráðherra verði teknar upp að þessu frumvarpi samþykktu.

Nú langar mig enn einu sinni, herra forseti, að vitna í texta frá Halla og Ladda þar sem segir, með leyfi forseta: „Mér þætti gaman að sjá það“, vegna þess að ég hef þá trú að þetta mál muni í engu breyta því að ráðherrar muni áfram halda sínum yfirburðum í því að ferðast á milli staða í ráðherrabílum. Þeim verður ekki lagt. Og menn munu segja: Ja, við erum að mæta á fundi í boði einhvers og einhvers. En málið er að nú rennur upp skeið borðaklippinga og skóflustungna. Það er alveg næsta víst að aðstöðumunur ráðherra og þingmanna verður ekki leiðréttur fyrir komandi kosningar. Af þeirri ástæðu er ekki hægt að leggja nafn sitt við þetta frumvarp.

Að öðru leyti vil ég segja það sérstaklega í tilefni orða hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar, sem talaði hér á undan mér, að í grunninn er ég á móti því að launakjör þingmanna og önnur starfskjör þeirra séu eitthvert feimnismál. Enda geta landsmenn, eins og alþjóð veit, flett upp launum okkar þingmanna í hverjum mánuði og séð hvernig þau laun eru samansett; grunnlaunin, álag vegna nefndarformennsku og/eða annarra slíkra hluta, og starfskostnaður og ferðakostnaður, ef hann er til staðar. Og nú er rétt að taka það fram að að sá sem hér stendur og menn sem eru í svipaðri stöðu og hann, þ.e. þingmenn hér á höfuðborgarsvæðinu, vegna málsins sem við erum að ræða, eru manna ólíklegastir til þess að fá einhvern kostnað endurgreiddan út af t.d. ferðakostnaði í kosningabaráttu. Það er einfaldlega þannig, og það er enginn að kvarta eða kveina undan því, að þeir sem búa á þessu svæði fá ekki ferðakostnað greiddan nema hvert ferðatilvik sé 15 km, þ.e. hvor leið, eða 30 km allt í allt.

Nú fer því fjarri að þingmaður eins og sá sem hér stendur þurfi að fara jafn langar leiðir og menn í hinum stóru landsbyggðarkjördæmum, sérstaklega norðaustur, norðvestur og suður þar sem menn þurfa að fara annars vegar frá Siglufirði og suður á Djúpavog og frá Reykjanestá að Hornafirði, bara svo dæmi sé nefnt. Tregða mín gagnvart þessu frumvarpi snýst ekki um það. Hún snýst einfaldlega um að allir sitji við sama borð, þar með taldir ráðherrar.

En eins og ég var að byrja að segja þá eru launakjör og önnur starfskjör þingmanna feimnismál, meira að segja í hugum þingmanna. Ég veit ekki af hverju það er. Þingmenn eru ekkert of sælir af sínum launum miðað við vinnutíma, en ég er heldur ekki kvarta yfir því. En það kom fram í svari við nokkuð viðamikilli fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir tveimur eða þremur árum, að ég held, að það sé ekki til forstöðumaður í ríkisstofnun svo smárri að hann sé ekki með betri launakjör en alþingismaður. Ég held að það sé líka hægt að fullyrða það að skrifstofustjóri í ráðuneyti er miklu betur haldinn launalega en alþingismaður. Mig minnir, herra forseti, að alþingismaður sé með launakjör á borð við launaheiti sem heitir skrifstofustjóri án skrifstofu, þ.e. einhver sem hefur skrifstofustjóratitil sem launaheiti en hefur ekki mannaforráð og, ég verð að segja, herra forseti, bera takmarkaða ábyrgð. Ég hef einhvern tíma sagt það af því að menn hafa oft talað um þjóðarskútuna, að á öllum öðrum skútum væri bátsmaður ekki með hærri laun en stýrimaður, bara svo það sé sagt. Þetta er sagt algjörlega án hroka eða drýldni, þetta liggur bara í eðli þess sem við erum að tala um.

Hver er ábyrgðin? Ég vitnaði áðan til skrifstofustjóra á skrifstofu í ráðuneyti. Ég hef ekkert á móti þeirri stétt, alls ekki. Hann er skipaður til fimm ára, yfirleitt endurskipaður nema eitthvað hræðilegt hafi gerst, þarf ekki að fara í starfsviðtal við þjóðina á fjögurra ára fresti. Þannig að ábyrgðin er mjög takmörkuð. Ég hef stundum tekið sem dæmi um þá ábyrgð sem hvílir á fólki hér og svo embættismönnum plagg sem kemur út einu sinni á ári, sem heitir fjárlög sem alþingismenn koma alveg ofboðslega lítið að því að semja og ráðherrar jafnvel líka, ég tala nú ekki um eftir samþykkt laga um opinber fjármál sem ég ætla, herra forseti, enn á ný að biðjast afsökunar á því að hafa stutt á sínum tíma. Ég mun sjá eftir því allan minn þingferil og lengur. En sérstaklega eftir þá breytingu eru áhrif þingmanna og ráðherra á fjárlög íslenska ríkisins nánast núll. Hverjir bera ábyrgð á þessu plaggi? Jú, það er hópur af ágætum embættismönnum sem semur þetta plagg, skilar því hér inn og við setjum fingraför okkar á það, sumir, aðrir ekki. En hver ber ábyrgð á því að fjárlög íslenska ríkisins standast ekki? Það er ekki maðurinn með excel-skjalið uppi í ráðuneyti sem samdi meiri partinn af frumvarpinu. Nei, það er trúlega hæstv. fjármálaráðherra. Honum gæti verið refsað grimmilega, t.d. með því að henda honum út í næstu kosningum. En embættismaðurinn siglir rólegan sjó og heldur áfram og býr til fleiri excel-skjöl fyrir næsta ráðherra og næsta þingmann.

Þannig að ég segi: Ef við tölum um ábyrgð, ef við tölum um vinnutíma — og ég segi aftur: Ég er ekki að klaga, ég valdi þetta hlutskipti sjálfur og er mjög hrifinn af því og sækist mjög eftir því að vera hér áfram. Það er ekki út af því að þangað leiti klárinn sem hann er kvaldastur, heldur af því að þetta er mikilvægt og merkilegt starf sem maður er auðmjúkur að fá að gegna. Þannig að ég hef látið fara aðeins undir skinnið á mér og í taugarnar á mér að þessi umræða um launakjör þingmanna og kjör þeirra að öðru leyti skuli vera feimnismál.

Ég hef sagt það áður, held ég, í þessum ræðustól, ég skal þá bara ítreka það og árétta, að ég mun ekki biðjast afsökunar á þeim launum sem alþingismenn hafa, síður en svo, og ég tel engan þurfa að gera það. Ég veit ekki um nokkurn mann hér inni, ekki núna, ekki áður það ég veit, sem hefur sóst eftir þessu starfi vegna launanna, ég þekki bara ekki þau dæmi. Enda sjá menn það á því sem ég sagði hér áðan, og nú ætla ég, þvert á það sem ég sagði áðan, að halda því fram að í ráðuneytum þar sem ég þekki til á Íslandi sé ærið vinnuálag. Þótt margir haldi að menn sitji þar og dotti fram á bringuna þá er það fullkominn misskilningur. Það er mjög hátt, ég ætla ekki að segja vinnutempó, herra forseti, af því að við tölum íslensku hér, en vinnuálag og hraði og nauðsyn á hröðum og fljótum og skjótum vinnubrögðum er mjög ráðandi og ríkjandi í starfsemi ráðuneyta. En engu að síður, eftir að hafa unnið ráðuneyti í nokkurn tíma man ég ekki eftir því að hafa verið að svara miklu af tölvupóstum eftir miðnætti og eitthvað slíkt, eins og maður gerir gjarnan í þessu starfi hér. Þannig að dagarnir eru ekki eins langir og ábyrgðin er ekki sú sama. Þess vegna finnst mér ekki að alþingismenn eigi að biðjast afsökunar á því að taka laun fyrir sín störf og mér finnst ekki að kjör þeirra eigi að vera eitthvert feimnismál.

Ef við tölum um að breyta starfskostnaðargreiðslu, það kann vel að vera að það sé hið besta mál, þá held ég að þak krefjist töluvert mikillar vinnu vegna þess að þá held ég, ef það verður ofan á að menn breyti því, að þetta verði greitt samkvæmt reikningum eða einhverju slíku. Það er bara fínt, gegnsætt og flott. En þá verða menn líka að vita alveg nákvæmlega hvaða kostnaður það er sem er endurgreiðanlegur.

Nú ætla ég að vitna til þess að það hefur hent mig held ég einu sinni eða tvisvar á mínum örstutta þingmannsferli að sækja fundi úti í heimi á eigin kostnað. Þá ákvað ég að nýta þann starfskostnað sem greiddur er hér til að standa straum af hluta af þeim kostnaði sem það hafði í för með sér að sækja fundi á eigin vegum en ekki þingsins. Ég verð að segja að þessi 40.000 kall á mánuði dugði ansi skammt í eitthvað slíkt. Þess vegna segi ég og ítreka það að ef við ætlum að fara að breyta því og segja: Nú endurgreiðum við kostnað samkvæmt reikningi, þá verðum við fyrst að vera með það alveg skýrt og alveg gagnsætt þannig að ekki sé hægt að misnota það: Hvaða kostnaður er það sem verður endurgreiddur?

Þá segi ég: Fari menn t.d. á fund — og ég ætla að segja það að þeir fundir sem ég sótti á eigin kostnað voru ekki ómerkilegir fundir nema síður sé. Þeir voru mjög merkilegir og mjög nauðsynlegir. Hið fyrra sinni þegar ég fór á slíkan fund var það vegna þess að Alþingi sendi ekki þingmann til þess fundar, svo merkilegt sem það nú var. Það var náttúrlega fjórum eða fimm árum eftir hrun þannig að menn voru svolítið nervösir við að borga mikinn ferðakostnað. En á þeim tíma sendi Alþingi ekki fulltrúa á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Alþingi sendi ekki fulltrúa þangað. Því lagði ég upp með nesti og nýja skó og fór þá ferð og nýtti til þess þennan starfskostnað. Og starfskostnaður ársins dugði hugsanlega fyrir helmingi af þeim kostnaði sem var útlagður út af þeirri ferð.

En aftur. Ég er ekkert að kvarta, ég ákvað að gera þetta sjálfur. Þetta er engum öðrum að kenna. Ég segi þetta bara af því að ég vara við og bendi á að menn þurfa að skilgreina endurgreiðanlegan kostað mjög vel.

En aftur að þessu örstutta nefndaráliti sem ég er búinn að tala dálítið mikið um og þó ekki. Ég leggst gegn þessu máli enn og aftur og mun greiða atkvæði gegn því þegar það kemur til atkvæða vegna þess að það er mín bjargfasta sannfæring að ráðherrar muni halda uppteknum hætti. Það vill þannig til að ég er nýbúinn að leggja fram þó nokkuð gildar fyrirspurnir um ferðakostnað ráðherra fyrir hvert ár, fimm ár aftur í tímann, þannig að það verður þá kannski fróðlegt að sjá hvernig hann breytist, ef hann breytist nú í aðdraganda þessara kosninga í haust þó að það svar komi síðar. En engu að síður hef ég þá bjargföstu trú að þetta skilji ráðherrana eftir skör hærra og betur setta en þingmenn hér inni og hvað þá þá sem sækjast eftir þingsæti og sitja ekki á þingi. Þess vegna finnst mér þetta mál ekki gott eins og það er umbúið og styð það ekki, stend ekki að nefndarálitinu og mun greiða atkvæði á móti þessu frumvarpi þegar það kemur hér til atkvæða.