151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:01]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Máttur forseta er mikill þar sem kerfið virðist komið í lag. En ég vildi samt nýta tækifærið hér undir fundarstjórn forseta og ræða um starfsáætlun Alþingis, sem ekki er virk núna, og taka sérstaklega undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um þau börn sem eru hreinlega skilin eftir og fá ekki inngöngu í framhaldsskóla á starfsbrautum. Mig langar að tala um þetta í samhengi við það sem við vorum að ræða í sambandi við Ráðgjafar- og greiningarstöð, sem mun heita svo; sú stofnun mun ekki veita ráðgjöf fyrir börn frá aldrinum 18 ára til 24 ára, þ.e. ungmenni. Ég velti þessu upp vegna þess að hver á að veita ráðgjöf til þessara barna og ungmenna sem nú eru skilin eftir og fá ekki inngöngu í framhaldsskóla? Þetta er grafalvarleg staða og menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra verða að svara fyrir þetta.