151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

688. mál
[23:15]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að eiga allt að 35% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra. Heimildin nái til sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum skv. 1. og 2. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 19/2009. Með frumvarpinu er lagt til að heimildin verði varanleg, þó með þeirri breytingu að bann við því að fjárfesting fari umfram 1% af heildareignum lífeyrissjóðs falli niður. Lífeyrissjóðnum verði gert að taka fram í fjárfestingarstefnu sinni hversu hátt hlutfall af eignum þeirra megi vera í slíkum sjóðum. Þá falli einnig niður ákvæði um að innlausn megi fyrst fara fram að liðnum fimm árum.

Þegar ákvæði til bráðabirgða, nr. 21 í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, var sett með lögum komu fram mjög skýr sjónarmið í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða sem eru mjög í samræmi við efni þessa frumvarps.

Nefndin áréttar markmið frumvarpsins um að treysta grundvöll fyrir lífeyrissjóði til þess að taka þátt í uppbyggingu sjóða um sameiginlega fjárfestingu til lengri tíma og sé það til þess fallið að tryggja betur fjármögnun nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Nefndin styður framangreint markmið en telur nauðsynlegt að vinna það nánar í samráði við hagsmunaaðila.

Með vísan til þess leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til að vinna málið nánar. Framsögumaður nefndarálitsins er hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sem ekki gat verið hér, og hljóp sú sem hér stendur í skarðið. Á nefndarálitinu verða einnig Óli Björn Kárason, formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar, og hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Smári McCarthy, Þórarinn Ingi Pétursson og Ólafur Þór Gunnarsson, með fyrirvara.