151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

leiðrétting búsetuskerðinga öryrkja.

[13:14]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra er vel Morfís-æfð og mjög sniðug í að svara ekki spurningum sem hún er spurð. Ég var ekkert að segja að það væri ekki búið að gera neitt fyrir öryrkja. Ég var bara að segja að það væri hópur af öryrkjum sem biði eftir leiðréttingu og biði eftir réttlætinu. Í þessari frægu ræðu árið 2017, þegar forsætisráðherra sagði að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi um að bíða eftir réttlæti, sagði hún að það sama ætti við um fólk á flótta sem hingað leitar. Þetta er sagt réttum tveimur mánuðum áður en hún fer í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, með hv. þm. Sigríði Á. Andersen í dómsmálaráðuneytinu. Það er því augljóst að það hefur ekki verið hátt á forgangslista hæstv. ráðherra að beita sér fyrir réttlætinu í málum fólks á flótta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem alla vega í orði á tyllidögum segist vera annt um að efla traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi: Hver er ábyrgð ráðherrans þegar kemur að því að hreinlega standa við orð sín? Hvernig á þjóðin í ljósi sögunnar að geta trúað einu einasta orði sem hæstv. ráðherra segir nú í aðdraganda kosninga?