151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

birting skýrslu um eignarhald í sjávarútvegi.

[13:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mikilvægi sjávarútvegsins dylst engum. Við erum fiskveiðiþjóð og við höfum alla tíð verið það. Vegna þess hversu miklu máli auðlindir hafsins skipta okkur er einmitt mikilvægt að vernda þær og að nýting þeirra sé gagnsæ og byggð á sanngirni. Við vitum hins vegar að sífelld spenna er um verðlagningu á fiski hér á landi. Á meðan eðlilegar skýringar finnast ekki veldur það tortryggni. Opinbert verð á fiski sem notað er við útreikninga veiðigjalds og uppgjör við sjómenn er 27% lægra en verðmæti fisksins segir til um. Þannig eru bæði þjóðin og sjómenn skert um hlutinn sinn þegar kemur að auðlindinni.

Vegna þess að þetta hefur verið uppspretta deilna í svo mörg ár, og jafnvel áratugi, höfum við í Viðreisn lagt til að þetta mat verði einfaldlega tekið úr höndum stjórnmálamanna og markaðurinn sjálfur ráði gjaldtökunni, að hluti kvótans verði settur á markað á hverju ári og markaðurinn fái þannig að svara lykilspurningunni um hvert raunverulegt virði er. Alveg eins og við treystum markaðnum á mörgum sviðum mannlífsins viljum við líka að gera það í þessum hluta. Á meðan deilt er um gjaldtökuna þá er hafið yfir allan vafa að arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja er langtum meiri en í öðrum greinum. Í þannig aðstæðum safnast aukin áhrif á hendur þeirra sem að greininni standa. Við í Viðreisn óskuðum eftir skýrslu 17. desember sl. um eignarhald stærstu útgerða landsins í íslensku atvinnulífi. Þessi skýrsla, þetta yfirlit er nauðsynlegt til að varpa ljósi á raunveruleg áhrif aðila sem hafa einkaleyfi til nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar á íslenskt atvinnulíf og samfélag. Mikilvægt er að fá einmitt þessi áhrif fram, ekki síst fyrir kosningar. En ekkert bólar á skýrslunni þrátt fyrir komandi kosningar.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem ber ábyrgð á þessum mikilvægu verðmætum þjóðarinnar (Forseti hringir.) í forystu fyrir ríkisstjórn, verkstjóra ríkisstjórnarinnar: Mun hún beita sér fyrir því (Forseti hringir.) að þessar upplýsingar verði birtar sem allra fyrst og helst fyrir kosningar?