152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar að ræða í samhengi nokkrar fréttir sem hafa birst á undanförnum tveimur vikum. Fyrsta fréttin kom rétt um áramótin um sjúkraflug í landinu og hversu mörg þau voru á síðasta ári, 807 flug á síðasta ári. Um helmingurinn af sjúkrafluginu er svokallað F1 eða F2, þegar sjúklingarnir eru í lífsógn eða alvarleg staða er uppi. Þetta er næstmesti fjöldi sjúkrafluga í sögunni á Íslandi og greinilegt að starfsemi í landinu, atvinnustarfsemi, er að fara á fulla ferð miðað við hvernig þetta ár þróast miðað við 2020, Covid-árið stóra. Á sama tíma er aðalskipulag Reykjavíkur samþykkt þar sem gert er ráð fyrir Reykjavíkurflugvelli til 2032. Það var bara samþykkt núna fyrir nokkrum dögum. Áður hafði norður/suður-brautin bara átt að vera til 2022 en á sama ári er það lengt til 2032. Þessi staða er náttúrlega gjörsamlega óþolandi, að við skulum alltaf vera að hugsa þetta til svona skamms tíma og það sé stöðug óvissa sem snýr að þeim mikilvæga þætti sem er sjúkraflug í landinu. Þetta er það sem var að koma frá Reykjavíkurborg en á sama tíma kemur skýrsla frá stjórnvöldum sem snýr að lendingarstöðum í sjúkraflugi á landsvísu, ágætisskýrsla sem kom inn á vef Stjórnarráðsins núna um áramótin. Þar er bent á mikilvægi þess að styrkja og byggja upp ákveðnar staðsetningar í sjúkraflugi á Íslandi og ber að fagna þeirri umræðu. En greinilega er það misjafnt hvað mennirnir hafast að í málefnum sem snúa að sjúkraflutningum með flugi, sem er gríðarlega mikilvægt í þessu landi.