152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Forseti. Í upphafi vikunnar féllu minnst sex snjóflóð í Súðavíkurhlíð og er mildi að ekki hlaust mannskaði af. Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkur, lýsti ástandinu í Súðavíkurhlíð sem ólíðandi og sagði m.a. um það:

„Blessunarlega hefur ekki orðið stórskaði úti á hlíðinni en þegar fólk er að sleppa með skrekkinn allnokkuð oft að því er virðist hvort sem það er frá grjóti eða snjóflóðum þá er það nú bara þannig að einhvern tímann kemur að því að einhver sleppur ekki.“

Það er mikilvægt að innviðaráðherra og Alþingi tryggi það í samgönguáætlun og með nauðsynlegum fjárveitingum að ráðist verði í Súðavíkurgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi. Sú jarðgangagerð þolir ekki lengri bið. Þá þarf strax að efla snjóflóðavarnir í Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíðum og tryggja vegi gegn grjót- og aurskriðum uns jarðgangagerð er lokið. Auk þess að tryggja ferðaöryggi fólks munu slík jarðgöng fela í sér byltingu fyrir byggðarlagið og opna á frekari tækifæri til uppbyggingar atvinnulífs og samfélags á svæðinu.

Þá er vert að benda á að það samrýmist ekki áætlunum stjórnvalda um orkuskipti að ætla Ískalki að brenna jarðefnaeldsneyti vegna óbreyttrar kerfisáætlunar Landsnets og viljaleysis og arðsemiskrafna Orkubús Vestfjarða til að bæta afhendingaröryggi og framboð á raforku í Súðavík. Lagning strengs um göng væri bæði öruggari og ódýrari og vegur upp á móti kostnaði við göngin. Auk þess eru orkuskipti fram undan við hafnir og í samgöngum sem eru nánast ógerningur miðað við framboð á raforku í Súðavík, innan við 2 megavött. Jarðgöngin munu tryggja ferðaöryggi fólks, opna gott aðgengi fyrir framtíðarbyggingarland, stuðla að sjálfbærri uppbyggingu atvinnulífs og skapa samfélaginu á svæðinu enn frekari tækifæri til vaxtar. Hér þarf strax að bregðast við. Það er til svo margs að vinna.