152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

163. mál
[15:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hjúskaparlögum. Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju. Frumvarpið er efnislega óbreytt að því undanskildu að gerðar hafa verið breytingar á gildistíma frumvarpsins að því er varðar ákvæði um könnun hjónavígsluskilyrða ásamt því að umfjöllun um fjárhagsleg áhrif og samráð vegna frumvarpsins hefur verið uppfærð. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem varða undanþáguheimild vegna lágmarksaldurs til þess að stofna til hjúskapar, könnun hjónavígsluskilyrða, lögsögu í hjónaskilnaðarmálum auk þess sem lagt er til að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að afnumin verði undanþáguheimild frá því að einstaklingar yngri en 18 ára megi ganga í hjúskap og er tilgangurinn að samræma hjúskaparlögin alþjóðlegum tilmælum og viðhorfum varðandi lágmarksaldur til að ganga í hjúskap. Samkvæmt núgildandi lögum mega tveir einstaklingar stofna til hjúskapar þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. Ráðuneytið getur hins vegar veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap, enda liggi fyrir afstaða forsjárforeldra til hjúskaparstofnunarinnar.

Þá er í frumvarpinu lagt til að lögfest verði meginregla um viðurkenningu hjónavígslu sem stofnað er til erlendis. Lagt er til að lögin beri með sér að hjónavígslur einstaklinga yngri en 18 ára sem fara fram erlendis verði ekki viðurkenndar hér á landi nema samkvæmt ströngum undanþágum. Er miðað við að þetta eigi við óháð því hvort hjónin séu enn yngri en 18 ára þegar þau koma hingað til lands og óska viðurkenningar. Heimilt verður þó að gera undanþágu frá þessu þegar sérstaklega stendur á og ótvíræðir hagsmunir þess sem var yngri en 18 ára krefjast þess. Viðkomandi skal þó hafa náð 16 ára aldri þegar hjónavígsla fór fram og hjúskapurinn vera viðurkenndur í því landi sem hjónavígsla var framkvæmd. Með tilliti til réttinda er fylgja því að ganga í hjúskap, meðalhófs og hagsmuna barna við sérstakar aðstæður þykir nauðsynlegt að heimilt verði að viðurkenna hjúskap í undantekningartilvikum.

Í frumvarpinu er í öðru lagi lagt til að könnun hjónavígsluskilyrða fari einungis fram hjá sýslumönnum, hvort sem hjónaefni eigi lögheimili hér á landi eða ekki. Þá er lagt til að ráðuneytið geti með reglugerð ákveðið að fela einu sýslumannsembætti umrætt verkefni. Með því að fela einu sýslumannsembætti umrætt verkefni verði unnt að samræma framkvæmd varðandi þær kröfur sem sýslumenn gera til þeirra gagna sem krafist er frá erlendum ríkisborgurum sem ætla að ganga í hjúskap hér á landi. Þá er gert ráð fyrir að jafnframt verði lögð áhersla á að einfalda ferlið með rafrænum lausnum.

Þess ber að geta að vígsluheimildir presta og forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga og umboðsmanna þeirra verða óbreyttar samkvæmt lögunum.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum hjúskaparlaga varðandi lögsögu íslenskra stjórnvalda og dómstóla til þess að veita lögskilnað hér á landi í tilteknum tilvikum ef hvorugur aðili býr hér á landi og viðkomandi eru ekki íslenskir ríkisborgarar.

Hjúskapur einstaklinga af sama kyni er ekki viðurkenndur í öllum ríkjum og þeir sem ganga í hjúskap hér á landi eiga ekki beinan rétt né kröfu til að hjúskapur þeirra verði viðurkenndur í öðrum ríkjum, t.d. ríkjum þar sem annar eða báðir eiga ríkisborgararétt eða hafa fasta búsetu. Pör af sama kyni sem gifta sig hér á landi og fá hjúskap sinn ekki viðurkenndan í heimalandi sínu geta ekki óskað eftir lögskilnaði hér á landi samkvæmt gildandi lögum nema þegar viðkomandi einstaklingar eru búsettir hér eða eru íslenskir ríkisborgarar.

Til að bregðast við gagnrýni sem hefur komið fram á gildandi löggjöf er varðar ákveðinn hóp, sem og að samræma lögin þeim reglum sem um þetta gilda annars staðar á Norðurlöndunum eru lagðar til breytingar á ákvæðum hjúskaparlaga sem snúa að lögsögu þannig að unnt sé að óska eftir hjónaskilnaði hér á landi ef leitt er í ljós að stefnandi geti ekki höfðað mál til skilnaðar í því landi þar sem hann á ríkisfang eða er búsettur. Eiga breytingarnar jafnt við um hjónaskilnaðarmál fyrir dómstólum og stjórnvöldum að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

Í fjórða lagi eru lagðar til ýmsar breytingar sem snúa að því að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna sem talin eru samræmast hlutverki sýslumanna betur en ráðuneytisins. Ber þar fyrst að nefna synjun á samþykki lögráðamanns fyrir því að ólögráða einstaklingur geti stofnað til hjúskapar, sem yrði þá borinn undir sýslumann í stað ráðuneytis. Þá er um að ræða undanþágu frá hjónavígsluskilyrðinu um tiltekna stöðu fjárskipta milli hjónaefnis og fyrri maka sem sýslumanni yrði heimilt að veita í stað ráðuneytisins. Því næst er um að ræða heimild ráðuneytis til að veita undanþágu frá því að tveir svaramenn ábyrgist að enginn lagatálmi sé á fyrirhuguðum hjúskap og að einn svaramaður undirriti vottorð. Það mundi þá vera undir sýslumanni komið að veita undanþáguna eftir atvikum. Ákvörðunum sýslumanna verður unnt að skjóta til ráðuneytisins.

Að lokum má nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir að varanlegur kostnaður hjá sýslumönnum vegna færslu verkefna til þeirra sem snúa að könnun hjónavígsluskilyrði geti numið um 18 millj. kr. á ári. Er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að taka ákveðið gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs.

Fjármögnun er lýtur að auknum varanlegum kostnaði hjá sýslumönnum hefur því verið tryggð með breytingum á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Í frumvarpinu er lagt til að lögin öðlist þegar gildi að undanskilinni 4. gr. frumvarpsins sem lagt er til að taki gildi 1. september 2022. Ákvæðið snýr að því að einungis sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra annist könnun á hjónavígsluskilyrðum og að heimilt verði að taka gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs.

Í frumvarpinu kemur fram að nauðsynlegt sé að gefa svigrúm til að undirbúa breytingarnar þar sem um er að ræða fjölda mála sem mun færast til sýslumanna og mögulega til eins sýslumannsembættis. Undirbúa þarf þær breytingar í samvinnu við sýslumannsembættin til að gera þeim kleift að taka við fleiri verkefnum.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.