152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

163. mál
[16:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur skal fúslega viðurkenna að út af sinni forvinnu þekkir hv. þingmaður þetta örugglega betur en ég, enda nýkominn í þetta ráðuneyti og ekki verið í amen-nefndinni hér í þinginu á þeim 14 árum sem ég hef verið hér. Ég get alveg tekið undir það að þegar lög eru orðin 30 ára gömul, og ég tala nú ekki um lög sem snúa að þessum málaflokki þar sem gjörbreyting hefur orðið í okkar samfélagi og öllum þeim samfélögum sem við berum okkur saman við, vestrænum samfélögum, geti verið full ástæða til að skoða það. En þá er líka bara full ástæða fyrir nefndina í yfirferð sinni um málið að tækifærið verði notað ef það eru einhver augljós atriði sem nefndarmenn vilja skoða samhliða því sem hér er lagt til, nú þegar þessi lög eru opin, og ná um það einhverri samstöðu. En ég get fyllilega tekið undir það og mun kanna hvort við förum í það að skoða almenna endurskoðun á hjúskaparlögum. Það getur verið fullt tilefni til þess.