152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

163. mál
[16:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á í framsögu minni er lagt til að lögfest verði sú meginregla um viðurkenningu hjónavígslu sem stofnað var til erlendis, að hjónavígslur fólks yngra en 18 ára sem þar hafa farið fram verða ekki viðurkenndar hér á landi nema samkvæmt ströngum undanþágum. En gert er ráð fyrir undanþágum kannski í þeim tilfellum þar sem hv. þingmaður vitnar hér til. Er þá, eins og ég sagði áðan, miðað við að þetta eigi við óháð því hvort hjónin séu enn yngri en 18 ára þegar þau koma hingað til lands og óska viðurkenningar. Heimilt verður þó að gera undanþágu frá þessu þegar sérstaklega stendur á og ótvíræðir hagsmunir þess sem yngri var en 18 ára krefjast þess. Þannig að ég held að þetta sé mál sem yrði væntanlega skoðað alveg sérstaklega og metið út frá hagsmunum þeirra sem hér eiga undir.