152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[15:36]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er brýnt að framlengja gildistíma lokunarstyrkjanna og við í Samfylkingunni styðjum frumvarpið. Það nær auðvitað bara til mjög afmarkaðs hluta atvinnulífsins og eftir standa fjölmörg fyrirtæki sem berjast í bökkum, bæði vegna veirunnar sjálfrar og vegna þeirra hörðu sóttvarnatakmarkana sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra telur að eigi sér ekki lengur lagastoð. Já, hæstv. ráðherra sagði í Kastljósinu að hinar lagalegu forsendur fyrir sóttvarnaaðgerðum væru brostnar. Það felur auðvitað í sér að þá er verið að brjóta gegn mannréttindum, brjóta gegn rétti fólks til að koma saman, brjóta gegn atvinnufrelsi, athafnafrelsi, stjórnarskrárvörðum réttindum.

Nú er það auðvitað heilbrigðisráðherra sem fer með málefni smitsjúkdóma og sóttvarna en hæstv. fjármálaráðherra hefur það í hendi sér að bæta fólki upp þann skaða sem hann telur að það sé að verða fyrir með, að hans sögn, ólögmætum takmörkunum.

Ég spyr: Hvers vegna er frumvarpið um almenna viðspyrnustyrki ekki komið inn í þingið? Hvenær koma t.d. frumvörpin um menningargeirann? Og ætlar ráðherra að sjá til þess að strax en ekki eftir margar vikur verði komið til móts við þau fyrirtæki sem verða fyrir höggi vegna sóttvarna sem hann telur í raun ólöglegar?