152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

blóðgjöf.

226. mál
[17:25]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því eins og aðrir að afnema eigi þessa ómálefnalegu mismunun á milli blóðgjafa. Það er sannarlega tímabært og í samræmi við vilja Samtakanna '78 og í samræmi við allar þær upplýsingar, læknisfræðilegar og aðrar, sem við höfum um þetta mál. Blóðgjöf er líklega fallegasta gjöf sem hægt er að gefa annarri manneskju og það er mikil gæfa að geta gefið blóð og fá að gefa blóð. Við höfum í þessu samfélagi notið þess að fólk hefur almennt verið mjög viljugt að gefa blóð og við höfum aldrei þurft að greiða fyrir blóðgjafir. Það hefur verið hluti af samfélagssáttmálanum að við gerðum það ef við gætum. Það verður sannarlega góð og velkomin viðbót við þann stóra hóp blóðgjafa þegar hommar og aðrir sem ekki hafa fengið að gefa blóð hingað til komast í Blóðbankann og geta líka gefið eins og við hin.