152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

nýskráning á bensín- og dísilbílum.

131. mál
[17:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Það er alveg skýrt í stefnu okkar í Viðreisn að við viljum að landið verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti ekki síðar en árið 2040. Liður í því er að banna nýskráningu á bensín- og dísilbílum. Í stefnu okkar segjum við um viðmiðið að það eigi að vera gert árið 2025. Noregur sem hefur verið til fyrirmyndar í þessum málum hefur farið þá leið og ég tel að við eigum að geta gert það líka, haft þann metnað og slegið tóninn. Framkvæmdastjóri Orkuseturs hefur lýst því yfir að ákvörðun fólks um hvernig bíl það kaupir hafi áhrif á alla þjóðina þegar kemur að skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Mikilvægasti liðurinn í því er að gera vistvænni bíla að raunhæfum valkosti fyrir sem flesta Íslendinga, huga að uppbyggingu innviða og sérstaklega að orkuskiptum í samgöngum. Í dag er aðeins brotabrot af fólksbílum á Íslandi sem notar eingöngu aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti. Algengast er að fólk fjárfesti í tengiltvinnbílum sem ganga fyrir rafmagni, metani og jarðefnaeldsneyti. Það vantar enn þá stórkostlega upp á að grundvallarinnviðir okkar geti ýtt þessu að okkur sem raunverulegum valkosti, sérstaklega fólkinu sem býr á landsbyggðinni, en í dag er náttúrlega langstærsti hluti bílaflotans í jarðefnaeldsneytinu. Sorglegt en staðreynd. Við höfum reyndar staðið okkur ágætlega að mínu mati, hlutfall nýskráninga bíla sem nýta ekki jarðefnaeldsneyti er gott og hefur aukist. Það er líka mikilvægt að huga að jafnræðissjónarmiðum og byggðasjónarmiðum, eins og ég kom inn á áðan, og ýta undir það að tekjulágt fólk eigi sömu möguleika og aðrir til þess að breyta nokkuð óhikað úr óvistvænum bíl yfir í vistvænan. Bílar sem eru keyptir í dag, árið 2022, eru líklegir til að vera á götum okkar næstu áratugina. Því fyrr sem við tökum ákvörðun um að banna innflutning og nýskráningar bíla sem knúnir eru á mengandi eldsneyti, þeim mun fyrr náum við tökum á þeim flota sem núna er á götum úti. Þeir bílar munu allir renna sitt skeið. Það er enginn að tala um að banna tilvist bensín- og olíubíla. Það er enginn að tala um það. Þeir munu renna sitt skeið en það er verið að tala um að banna innflutning árið 2025. Þetta er spurning um að stýra markaðnum en ekki síst að taka raunverulega stór skref í átt að vistvænna samfélagi.

Ráðherrann hefur auðvitað risaverk að vinna, ekki bara að tryggja nægilegt rafmagn og betra flutningskerfi fyrir orkuskiptin. Ef við ætlum okkur raunverulega í hröð orkuskipti þá þurfum við að gera meira, efla flutningskerfið og fara líka í þær virkjanir sem eru m.a. á rammaáætlun og setja vinnuvélarnar strax af stað. Við eigum að hafa metnað til að taka stór skref strax. Þau er hægt að taka víða, m.a. snýst þessi (Forseti hringir.) fyrirspurn mín um það hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að nýskráningum bensín- og dísilbíla verði hætt árið 2025.