Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

vaxtahækkun Seðlabankans.

[11:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Já, vextir hækkuðu í gær. Ég tel það ekki metnaðarleysi að halda því til haga að áfram eru vextir í íslensku samfélagi í sögulegu lágmarki, í sögulegu samhengi, þrátt fyrir að þeir hafi hækkað. Mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum hér það sem hefur áhrif á vaxtastig í landinu og mér finnst við ýmist ekki ræða það nægilega mikið eða ekki með þeim hætti að hlutirnir séu settir í samhengi.

Hv. þingmaður talar um þessa vexti og áhrif þeirra á þá stöðu sem ríkisfjármálin eru hluti af, launaþróun er hluti af og húsnæðismarkaðurinn og framboð á honum, er hluti af. Stærstu sveitarfélögin í landinu hafa auðvitað mikil áhrif hvað varðar framboð á húsnæðismarkaði og Reykjavíkurborg þar sérstaklega. Það er alveg hægt að rökræða um þéttingu byggðar og ýmislegt, en það er staðreynd að framboð af húsnæði er ekki nóg.

Það verður að líta til þess hvaða þættir það eru sem helst hafa áhrif á vexti. Hér er talað um, þegar kemur að vöxtum og verðbólgu, áhrifin á þá sem í dag eiga húsnæði og horfa á lánin sín hækka. Þá þurfum við líka að halda því til haga að eignastaða fólks, sem hefur þá þegar komist inn á húsnæðismarkaðinn, er langtum betri en áður. Eignastaðan hefur líklega batnað um 1.000 milljarða, eða þar um bil, á meðan við erum að tala um 500 milljarða á hinni hliðinni hvað varðar áhrif á verðbólgu og vexti. Ég hef því í raun meiri áhyggjur af því fólki sem þarf að komast inn á húsnæðismarkaðinn. (Forseti hringir.) Þar höfum við í Sjálfstæðisflokknum talað mjög skýrt og höfum góða sögu að segja með þeim aðgerðum sem farið hefur verið í til þess að auðvelda því fólki að komast inn á húsnæðismarkaðinn.