Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Eins og við þekkjum flest hafa ákvæði um styttingu vinnuvikunnar verið sett inn í flesta kjarasamninga. Framkvæmd styttingarinnar fer síðan eftir samkomulagi starfsmanna og atvinnurekanda hverju sinni, en hún felst í því að heildarvinnuvika starfsmannsins styttist. Markmiðið með styttingu vinnuvikunnar er að gera vinnustaðinn fjölskylduvænni, nýtingu vinnutímans markvissari og bæta vinnustaðamenningu. Þetta eru allt markmið sem eru eftirsóknarverð og leiðarljós inn í framtíðina.

Í flestum kjarasamningum eru ákvæði um styttingu á vinnutíma ákvæði sem vinnuveitendum ber að fylgja, t.d. hjá opinberum stofnunum. Ákvörðun um að stytta vinnuvikuna var tekin með það í huga að styttingin hefði engin áhrif á þjónustustig og myndi ekki kosta aukin fjárútlát. Ljóst er að ákvæðið gengur ekki upp á mörgum stöðum. Þetta er sérstaklega erfitt á vinnustöðum þar sem eðli starfa er þannig að starfsmaður verður að vera til staðar á ákveðnum tímum, t.d. í skólum eða á heilbrigðisstofnunum. Í sumum tilfellum leiðir ákvæðið óhjákvæmilega til aukins kostnaðar eða skerðingar á þjónustustigi, en annars staðar eiga stjórnendur auðveldara með að framfylgja þessu. Ef fram fer sem horfir gæti farið svo að við munum ekki sjá allt það góða sem stytting vinnuvikunnar getur haft í för með sér. Stjórnendur gætu neyðst til að hagræða til að mæta auknum kostnaði sem getur aftur leitt til áhrifa á þjónustustig viðkomandi stofnunar.

Í komandi kjaraviðræðum er mikilvægt að við horfumst í augu við stöðuna. Öll sækjumst við eftir fjölskylduvænum vinnutíma og markmiðið er eftirsóknarvert. En það þarf að ganga upp fyrir alla, starfsfólk, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið.