Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er súrrealískt að á sama tíma og hæstv. dómsmálaráðherra kemur inn í þingið með lagafrumvarp til að bregðast við mútubrotum sé aðstoðarmaður hans að hamast á blaðamanni í útvarpsþætti og þráspyrja hann um gögn sem vísað gætu á heimildarmenn, og ekki bara hvaða gögn sem er heldur gögn sem tengjast einum anga stærsta mútumáls Íslandssögunnar sem hefur verið til rannsóknar í nokkrum löndum. Þetta er svo sérstakt að ég verð eiginlega að fá að árétta: Á meðan dómsmálaráðherra er í þinginu að reyna að efla viðbragð gegn mútubrotum er aðstoðarmaður hans opinberlega að pönkast í blaðamanni og krefjast þess að hann brjóti fjölmiðlalög með því að upplýsa um gögn sem vísað gætu á heimildarmenn sem tengjast risastóru mútumáli.

Samhengið er einfalt. Stórfyrirtæki er grunað um alvarlegt brot. Það voru fjölmiðlar sem upplýstu um brotið. Fyrirtækið bregst við með árásum á blaðamenn. Fjölmiðlar upplýsa um hverjir eru á bak við árásirnar. Þeir sem taka sér sjálfkrafa stöðu gegn fjölmiðlunum í þessari atburðarás en þegja yfir framgöngu fyrirtækisins eða verja það jafnvel eru á glerhálum villigötum.

En þótt Baldur og Konni séu víða vona ég heitt og innilega að aðstoðarmaðurinn sé ekki að bergmála einhver viðhorf ráðherrans um að fjölmiðlar upplýsi um gögn sín og heimildarmenn sem njóta verndar samkvæmt lögum. Að þessi rödd komi úr ráðuneytinu sem er yfir löggæslu, ákæruvaldi og dómurum í landinu er hins vegar ekki traustvekjandi. Að þessi rödd heyrist hæst þegar hagsmunir útgerðarfyrirtækis kalla á er ekki þægilegt. Þetta viðhorf afhjúpar hvers vegna við höfum áhyggjur af stöðu blaðamanna sem afhjúpa spillingu. Svona skilningsleysi, byggt á trénuðu viðhorfi til fjölmiðlafrelsis, er hættulegt. Það er ekki bara einhver sérviska blaðamanna eða nöldur í stjórnarandstöðu að halda slíku fram. Tveir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa stigið fram og sagst vera brugðið og þungt skref að blaðamenn séu með réttarstöðu sakbornings.

Samherjamálið er ein ástæða þess að Ísland er fallið í 16. sæti yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum. Það er talsvert alvarlegra mál en að lenda ítrekað í 16. sæti í Eurovision. Það er hins vegar alvarlegast af öllu að afmarkaður hluti þjóðarinnar skuli ekki átta sig á þessari einföldu staðreynd.