152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

gjaldfrjálsar tannréttingar fyrir börn.

58. mál
[12:40]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa þingsályktunartillögu. Tannréttingar fyrir börn eru ekki bara heilbrigðismál í hinni einföldu skilgreiningu þess orðs. Þetta er líka rosalega mikilvægt geðheilbrigðismál vegna þess, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir benti á, að skakkar tennur geta haft skelfileg áhrif á sjálfsímynd barna.

Það er með engu ásættanlegt að börn úr efnaminni fjölskyldum þurfi að líða fyrir það hversu dýrar tannréttingar eru. Sjálfur á ég fimm börn sem fóru öll í tannréttingar. Sem betur fer var ég með góð laun þegar þau voru með spangir og hafði efni á því. En ég get sagt það að ég held að engin af þeim meðferðum — þau eru nú komin yfir þann aldur að hægt sé að kalla þau börn núna, þau eru orðin ungir einstaklingar, sjálf komin með börn — hafi kostað undir milljón og síðan eru liðin 10 til 15 ár. Ef ég þekki verðlagsþróun rétt þá hefur verðið alveg örugglega hækkað síðan þá. Það að styrkurinn skuli hafa verið 100.000 kr. allan þennan tíma er náttúrlega til háborinnar skammar.

Virðulegi forseti. Ég skora einfaldlega á hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, að taka þessari þingsályktunartillögu vel og senda fulltrúum meiri hlutans í velferðarnefnd þau skilaboð að um sé að ræða réttlætismál sem þurfi að laga svo að þessi þingsályktunartillaga komist hratt og vel í gegnum þingið.