152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

gjaldfrjálsar tannréttingar fyrir börn.

58. mál
[12:43]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það þarf kannski ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þessa máls sem hér er flutt af þingflokki Samfylkingarinnar, fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Helga Vala Helgadóttir.

Það er með ólíkindum að við séum hér árið 2022 enn að ræða þá sjálfsögðu samfélagsaðgerð sem það er að niðurgreiða tannréttingar fyrir börn. Það er gert í löndunum í kringum okkur. Það er hluti af því að jafna stöðu barna og jafna stöðu fjölskyldna þannig, eins og fram kemur í greinargerðinni, að efnaminni fjölskyldur þurfi ekki að neita börnum sínum um nauðsynlegar tannréttingar. Það er, verð ég að segja, umhugsunarefni hvernig það hefur verið látið viðgangast í okkar ríka landi árum og áratugum saman að láta sem tannréttingar séu ekki hluti af nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem samfélagið þurfi saman að greiða fyrir og bera kostnað af.

Oft er verið að ræða í þessum sal hvað það sé að vera jafnaðarmaður eða einhverjir vilja kannski fá betri útskýringar á því hver sé munurinn á sósíaldemókrötum og fólki sem aðhyllist aðrar stjórnmálastefnur. Munurinn liggur í þessu: Við viljum að sameiginlegir sjóðir okkar, skattfé borgaranna, séu nýttir til þess að jafna kjör í landinu og stuðla að því að hver einasti einstaklingur fái blómstrað. Það er hluti af því sem þarf að gera þegar þarf að rétta tennur eða ráðast í stærri aðgerðir vegna munnhols eða tanna. Þetta er í sjálfu sér ekkert flókið en fyrirstaðan hefur verið geigvænleg. Við erum búin að ræða þetta í áratugi og það var jú reyndar, eins og skýrt kemur fram í tillögunni og greinargerðinni, þegar jafnaðarmenn voru í ríkisstjórn og Guðbjartur Hannesson heitinn var velferðarráðherra, sem gengið var til samninga við tannlækna og úr varð kerfi eins og er annars staðar þar sem ekki þarf að greiða fyrir tannlækningar barna nema að mjög litlu leyti. Þetta þarf að vera eins og ég vona að allir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, og hvort sem þeir styðja ríkisstjórnina eða ekki, treysti sér til að afgreiða þetta réttlætismál og koma því til framkvæmda eigi síðar en á þessu ári.