152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu og hækkana á húsnæðiskostnaði.

330. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar en á henni eru einnig flutningsmenn úr öðrum flokkum í stjórnarandstöðu, minni hluta, hv. þingmenn Eyjólfur Ármannsson úr Flokki fólksins, Björn Leví Gunnarsson frá Pírötum og Guðbrandur Einarsson frá Viðreisn. Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til mótvægisaðgerða til að mæta hækkaðri greiðslubyrði húsnæðis með auknum fjárhagsstuðningi, annars vegar með sértækri niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði viðkvæmra hópa og hins vegar með dreifingu húsnæðisgreiðslna til skamms tíma fyrir stærri hóp heimila til að milda höggið af hröðum viðsnúningi vaxta og verðbólgu.

Aðgerðirnar byggist á upplýsingum og greiningu á því hvaða hópar verða fyrir mestum búsifjum vegna örra breytinga á vaxtakjörum og aukins verðþrýstings og miði að því að koma í veg fyrir að snaraukið aðhaldsstig peningastefnu og ríkisfjármála skapi ójafnvægi meðal heimila í landinu og auki ójöfnuð.

Ríkisstjórninni verði falið að leggja fram nauðsynlegar tillögur til þinglegrar meðferðar eigi síðar en 8. mars 2022.“

Virðulegi forseti. Í dag er 8. mars. Það hefði verið óskandi að þetta mál hefði komist fyrr á dagskrá í ljósi þess að um „akút“ umræðu er að ræða og verðhækkanir og sá verðþrýstingur sem áhyggjur voru af þegar þessi tillaga var lögð fram hefur einfaldlega aukist á þessu tímabili. En vonandi nær málið fram að ganga og við sjáum tillögurnar koma fram. Hér er sem sagt verið að leggja til að útfærðar verði beinar mótvægisaðgerðir við þessum snörpu breytingum sem við sjáum nú á kostnaði heimilanna, og þær lagðar fyrir þingið. Það má líta til fjölda úrræða, sértækra vaxtabóta t.d. og það má líka líta til húsaleigubóta. Fyrir svona almennar aðgerðir má horfa til þess að ríkið hefur áður stigið inn í þessum faraldri, sem er nú að líða undir lok eða a.m.k. að hluta til, og beint fyrirmælum til fjármálafyrirtækja með milligöngu Seðlabanka Íslands um að gera fyrirtækjum kleift að dreifa áfallinu af heimsfaraldrinum. Það má líta til slíkra dreifingarúrræða fyrir heimilin og styðjast líka við erlend fordæmi sem ég ætla að vitna til á eftir.

Virðulegi forseti. Þetta mál er frekar einfalt. Það verður bara að huga að mótvægisaðgerðum fyrir heimilin. Ríkisstjórnin verður að átta sig á því að afskiptaleysi í húsnæðismálum og málum vinnumarkaðar í nafni sparnaðar í ríkisrekstri á eftir að veikja stoðir samfélagsins sem bitnar síðar meir á sjálfbærni ríkisrekstrar. Það blasa við kjarasamningar á tímum 6% verðbólgu og tuga prósenta húsnæðisverðshækkana á örfáum árum. Það berast fréttir af áhyggjum af verðbólguspíral. Nú síðast viðraði Seðlabankinn það á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar að það væru áhyggjur af því að innfluttur verðþrýstingur til viðbótar við þennan húsnæðisverðsþrýsting geti framkallað hringrás verðlags og launahækkana. Þetta þarf að rjúfa með hnitmiðuðum sértækum aðgerðum og þarna hafa stjórnvöld hlutverk en úrræðaleysi virðist algjört. Við þetta bætist skelfilegt ástand á erlendri grundu, stríð í Evrópu, árásir á saklausa borgara í Úkraínu, land sem gegnir mikilvægu hlutverki í efnahag heimsins. Afleiðingar af þessari mannúðarkrísu, af þessu hræðilega ástandi, verða líka efnahagslegs eðlis og þær munu rata hingað og hafa nú þegar ratað hingað. Beinasta birtingarmyndin í dag er til að mynda olíuverðshækkanir sem hafa verið gríðarleg á undanförnum vikum. Bensínlítrinn er núna kominn í 300 kr., var 100 kr. lægri fyrir tveimur árum síðan. Fyrir flokka eins og Samfylkinguna, sem er hugað um jöfn umskipti — þrátt fyrir að við viljum horfa á aðra tegund af eldsneyti viljum við ekki að hækkanir á olíuverði bitni á fólki á lægri launum í landinu. Enn í dag vitnar þó hæstv. fjármálaráðherra til margra mánaða gamalla talna um vanskil í bönkum sem einhvern mælikvarða á skorti á nauðsyn þess að grípa til aðgerða sem gætu komið í veg fyrir verðbólguspíral síðar á árinu og það þrátt fyrir að nýsamþykkt fjármálastefna stjórnvalda, sem er rammi utan um rekstur ríkisins út kjörtímabilið, geri í rauninni ekki ráð fyrir neinu svigrúmi að ráði þegar kemur að verðbólguskoti eða hækkun launakostnaðar. Annaðhvort eru áætlanir stjórnvalda eins og þær birtast í fjármálastefnu nú þegar sprungnar eða hér verður áfram rekin stefna þar sem stöðugt er pakkað í vörn þegar upp koma vandamál í stað þess að stíga inn í vandamálið og taka á því. Þessi þingsályktunartillaga er skrifuð fyrir stjórnvöld svo þau komist eitthvað áfram, sem viðbrögð við úrræðaleysi þeirra, því að okkur sem leggjum hana fram er umhugað um stöðugleika, efnahagslegan og félagslegan.

Virðulegi forseti. Það má færa sterk rök fyrir því að núverandi staða í efnahagsmálum hvað varðar verðbólgu og húsnæðisverðshækkanir sé til komin vegna hagstjórnarmistaka af hálfu stjórnvalda í upphafi kórónuveirufaraldurs. Ákveðið var að beita bankakerfinu til að koma fjármagni út í kerfið í stað þess að beita tækjum ríkisfjármálanna með markvissum hætti. Eiginfjárkröfur á bankana voru lækkaðar sem og bankaskattur í þeirri von að fyrirtækin fengju fyrirgreiðslu til að halda starfseminni gangandi, en fjármagnið leitaði hins vegar ekki þangað. Með þessum seinagangi á sviði ríkisfjármála varð til tómarúm sem Seðlabankinn þurfti að stíga inn í með mjög afgerandi vaxtalækkun. Niðurstaðan er methagnaður bankanna upp á 80 milljarða kr. eftir eina mestu kreppu Íslandssögunnar. Niðurstaðan er að nær allar lánveitingar fjármálafyrirtækjanna hafa ratað inn á húsnæðismarkaðinn. Niðurstaðan er 25% hækkun húsnæðisverðs frá upphafi þessa faraldurs, önnur slík hækkun á fimm ára tímabili þessarar ríkisstjórnar. Niðurstaðan er rúmlega 6% verðbólga.

Nú stefnir í sögulega hraðar vaxtahækkanir. Ungt fólk og tekjulágt, sem má ekki við hröðum breytingum á greiðslubyrði, stendur nú frammi fyrir kostnaðarkreppu. Kæla þarf hagkerfið með því að minnka neyslu vegna þess að skuldirnar eru komnar til að vera sem og íbúðaverðshækkanirnar. Stjórnvöld vitnuðu ítrekað á undanförnum mánuðum, og sérstaklega í aðdraganda kosninga, til lágra vaxta vegna vel heppnaðra efnahagsúrræða og gáfu til kynna að um eðlilegt ástand væri að ræða á markaði fyrir húsnæðislán. Ítrekað hefur komið fram að aldrei hafi fleiri getað skuldsett sig fyrir fyrstu fasteign en á tímum kórónuveirufaraldurs. Þetta er fyrst og fremst ungt fólk sem hefur fullorðinsár sín með miklar skuldir á bakinu vegna þess hve mikið íbúðaverð hefur hækkað í þessu ástandi. Efnahagsstefna stjórnvalda hefur byggst á því að láta heimilin í landinu skuldsetja sig fyrir efnahagsbatanum. Heimilin bættu við sig 450 milljörðum kr. í skuldir á tímum kórónuveirufaraldurs. Þessi viðbótarskuldsetning hefur orðið til þess að auka fjármálaóstöðugleika í landinu, líkt og Seðlabankinn hefur varað við, en að sama skapi gert heimilin berskjölduð fyrir hertu aðhaldsstigi í peningastjórnun. Nú stefnir í talsverða breytingu á greiðslubyrði þessara hópa á mjög skömmum tíma þegar verðbólga rýkur upp.

Virðulegi forseti. Við í þingflokki Samfylkingarinnar, ásamt fulltrúum Flokks fólksins, Pírötum og Viðreisnar í fjárlaganefnd, leggjum þess vegna fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin grípi til mótvægisaðgerða með auknum fjárhagsstuðningi, annars vegar með umræddri niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði viðkvæmra hópa og hins vegar með dreifingu húsnæðisgreiðslna til skamms tíma fyrir stærri hóp heimila til að milda höggið af þessum viðsnúningi í vöxtum og verðbólgu. Þessar hugmyndir eru ekki úr lausu lofti gripnar. Mótvægisaðgerðir eru skynsamlegar og til marks um ábyrga efnahagsstjórn á þessum tímapunkti. Fordæmin eru nú þegar komin fram í útlöndum um aðgerðir til að milda höggið fyrir heimilin í landinu. Líta má til Bretlands í því samhengi þar sem gripið hefur verið til mótvægisaðgerða í formi frestunar á greiðslum og skattafslátta vegna hækkunar á orkuverði þar í landi. Það má ekki endurtaka þau mistök sem áttu sér stað í upphafi heimsfaraldurs þar sem tregða stjórnvalda til að stíga inn skapaði ójafnvægi í hagkerfinu með þeim afleiðingum sem nú blasa við. Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin verði ekki líka of sein að bregðast við þessum seinni fasa af efnahagsáhrifum kórónuveirunnar þar sem vandinn er fyrst og fremst verðbólga og ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Kostnaður ríkissjóðs af því að bregðast of seint við verður meiri en ef ráðist er strax í aðgerðir. Úrræðin verða að vera til staðar ef ástandið versnar en allt bendir því miður til þess að sú verði raunin.

Virðulegur forseti. Verðhækkanir eru yfirvofandi, hrávöruverð fer hækkandi og mun ýkja þróunina eftir kórónuveirufaraldurinn og mun hér á landi bætast við það mikla ójafnvægi sem hefur skapast á húsnæðismarkaði. Við þetta er hægt að eiga en þá þarf að sýna pólitíska forystu. Það þarf að taka ákvarðanir. Hér er nýbúið að samþykkja fjármálastefnu stjórnvalda, mjög þröngan ramma um öll umsvif hins opinbera út kjörtímabilið, í raun svo þröngan að það er mjög erfitt að merkja þar þá sókn sem við viljum öll sjá. Langtímasjónarmið og áætlanir skipta vissulega máli, en lög um opinber fjármál og svona áætlanir verða líka að taka mið af því að við lifum í síbreytilegum heimi og lendum trekk í trekk áföllum, sum vegna ákvarðana hér á landi sem stjórnvöld bera beina ábyrgð á, vegna stefnu- og aðgerðaleysis sem hefur veikt grunninn sem við öll vöxum á, en í öðrum tilvikum vegna utanaðkomandi áfalla, fall flugfélags í litlu hagkerfi 2019, heimsfaraldur og innlend efnahagsviðbrögð 2020, stríð 2022. Langtímastefna í fjármálum hins opinbera verður að hafa svigrúm til að bregðast við áföllum til að draga úr þrýstingi síðar meir. Langtímaplön verða að vera uppbyggð með þeim hætti að stjórnin treysti sér til að bregðast við „akút“ vanda á sama tíma og grunnurinn er lagaður. Langtímaáætlanir, teknókratískir rammar veita vissulega ákveðið gegnsæi en þeir mega ekki draga úr pólitískri ákvarðanatöku og ábyrgð á kjörtímabilinu. Það koma einfaldlega upp tilvik þar sem reynir verulega á skilning stjórnvalda á því hvernig hagstjórnin virkar í hagkerfinu, mikilvægi ákveðinna aðgerða í þágu velferðar. Ef ekkert er aðhafst er langtímastefna stjórnvalda hvort sem er brostin. Þessi teknókratíski rammi sem þingið samþykkti fyrir tveimur vikum getur hæglega brostið mun fyrr og með mun afdrifaríkari hætti ef stjórnvöld forðast pólitískar ákvarðanir í dag.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ábyrgðin er hér inni. Það er lögbundið hlutverk Seðlabanka Íslands að stuðla að verðstöðugleika en það er hlutverk stjórnmálanna í velferðarsamfélagi að tryggja með öllum ráðum að þær aðgerðir skapi ekki neyð meðal hóps fólks. Til þess erum við í stjórnmálum og til þess er þessi þingsályktunartillaga.

Virðulegi forseti. Að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að það verði sent til efnahags- og viðskiptanefndar og ég vona að það hljóti þar framgang.