152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Í dag vil ég gera að umtalsefni mínu niðurstöðu nýútkominnar skýrslu Kolbeins H. Stefánssonar félagsfræðings og Helga Eiríks Eyjólfssonar, sérfræðings í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Skýrslan ber nafnið Félagsleg og efnahagsleg staða og brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar skýrslan um brotthvarf og námstafir á framhaldsskólastigi með tilliti til félagslegra og efnahagslegra þátta eins og menntunar foreldra, fjölskyldustærðar og innkomu.

Niðurstöðurnar gefa glögga mynd af stöðunni. Brotthvarf úr framhaldsskólanum helst hönd í hönd við félagslega og efnahagslega þætti. Þar skiptir menntun foreldra mestu máli en líkur á brotthvarfi aukast sömuleiðis þegar litið er til heimilistekna. Þá snúa nemendur sem búa við bága félags- og efnahagsstöðu síður aftur til náms og líkurnar á endurteknu brotthvarfi aukast umfram aðra hópa. Niðurstöðurnar sýna einnig að áhrif menntunar foreldra eru meira afgerandi en áhrif tekna.

Vissulega eru fleiri bakgrunnsþættir sem hafa áhrif og fjöldi þátta sem bæði útskýra orsakir og afleiðingar brotthvarfs nemenda. Á það ekki síst við um fráviks- og áhættuhegðun, námsárangur, samband við foreldra o.fl. Grunnstefið er þó alltaf það að brotthvarf úr námi snýr að félagslegum og efnahagslegum þáttum, snýr að stétt og stöðu. Þess vegna er fjölþættur og þverfaglegur stuðningur strax í leik- og grunnskóla mikilvægur sem og samstarf á milli skóla og félagsþjónustu. Allir þurfa að hjálpast að við þetta mikilvæga verkefni.

Í skýrslunni segir líka að menntakerfið mótist af þörfum fjöldans, af þörfum ráðandi hópa, t.d. millistéttarinnar. Í því tilliti falla aðrir nemendur á milli skips og bryggju, þau sem ekki finna sig í námi, hvort sem er vegna bakgrunnsþátta þeirra sem ég nefndi hér að ofan, vegna kynhneigðar, nemendur með erlendan bakgrunn eða þau sem búa við fötlun, svo að fátt eitt sé nefnt. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öllum börnum og ungmennum jafnan aðgang að námi. Það þýðir að við náum utan um þau áður en þau falla brott úr námi en líka utan um þau sem það gera því að þau eru jú öll mikilvæg.