152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:47]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Stríð geisar nú í Úkraínu og hafa Vesturlönd setti viðskiptaþvinganir á innrásaraðila sem leiða mun til olíuverðhækkana. Þess vegna er brýnt að hraða orkuskiptum enn frekar. Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra lagt til að hámarksfjöldi rafmagnsbifreiða sem geta notið ívilnunar frá virðisaukaskatti verði aukinn úr 15.000 bifreiðum í 20.000 í drögum að frumvarpi sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda. Ekki er fyrirhugað að gera sams konar breytingar vegna tengiltvinnbíla. Hvers vegna leiðréttum við ekki mikil mistök sem áttu sér stað um síðustu áramót og framlengjum ívilnanir vegna tvinnbíla í ljósi þess að þeir nota líka rafmagn og auðvelda breytinguna frá bensínbíl yfir í rafmagnsbíl? Tengiltvinnbílar hafa notið mikilla vinsælda og flestum þykir auðveldara að stíga þannig fyrsta skrefið í átt að orkuskiptum. Ég tel að áframhaldandi ívilnanir fyrir tvinnbíla séu frekar til þess fallnar að stuðla að orkuskiptum heldur en hið gagnstæða. Fjöldi fólks er ekki tilbúið að fórna drægni í þágu orkuskipta og það á sérstaklega við íbúa landsbyggðarinnar. Tengiltvinnbílar henta vel fyrir þennan hóp og losa óneitanlega minni koltvísýring en bílar sem einungis eru knúnir eldsneyti.