152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Við þurfum að standa með Sigurði Inga Jóhannessyni og sýna honum fullan stuðning í árásum rússneska sendiráðsins á hann því að það eru árásir á íslenska þingið. Rússneska sendiráðið hefur misnotað 95. gr. almennra hegningarlaga áður og býr sig greinilega undir að gera það aftur með því að krefjast afsökunarbeiðni frá ráðherranum. Ráðherrann sagði að Vladimir Pútín væri illvirki. Undir það held ég að við getum öll tekið, hvert eitt og einasta. Ef dómsmálaráðherra verður beðinn um að virkja 95. gr. gegn innviðaráðherra kemur til kasta forseta að meta það hvort svipta eigi ráðherrann friðhelgi þingmanns. Þar stöndum við saman öll sem eitt; með friði, gegn Vladimir Pútín, illvirkjanum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)