152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

fyrirkomulag við sölu Íslandsbanka.

[11:18]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M):

Virðulegi forseti. Í viðtali við Morgunblaðið þann 11. apríl síðastliðinn, eins og vitnað er til í Morgunblaðinu í dag, sagði hæstv. menningar og viðskiptaráðherra að hún hefði ekki verið hlynnt þeirri aðferðafræði sem var við söluna á Íslandsbanka og hefði verið mótfallin því að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta — ég vona að þetta sé rétt haft eftir hæstv. ráðherra. Sjónarmiðum sínum í þessu efni hefur hún komið skýrt á framfæri.

Nú hefur raunar komið í ljós, eða ég tel það alla vega vera niðurstöðu opins fundar með Bankasýslunni í gær, að bréfin voru ekki einu sinni seld til neins valins hóps, heldur þeirra sem komumst að borðinu til að gera tilboð og uppfylltu að einhverju leyti eftiráskýringar um hvað teljist hæfir fjárfestar, allir nema tveir erlendir fjárfestar sem erlendur söluráðgjafi taldi ekki hæfa því að þeir væru of kvikir. Telur ráðherrann að salan á Íslandsbanka hafi e.t.v. ekki verið í samræmi við það sem kynnt var á fundi ráðherranefndar um efnahagsmál 4. febrúar með Bankasýslunni?

Íslandsbanki komst í eigu íslenska ríkisins með svokölluðu stöðugleikaframlagi kröfuhafa föllnu bankanna — þetta veit ég að hæstv. ráðherra þekkir allt miklu betur en ég — í ríkisstjórn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þetta var einstök aðgerð. Ég vil spyrja: Telur hæstv. ráðherra að sölunni á bankanum nú, sem hún segir líka að sé kerfislega mikilvægur og ein verðmætasta eign ríkisins, megi líkja við einhverja aðra einkavæðingu í Evrópu á síðari tímum? Því að það er oft vitnað til þess í máli þeirra sem skýra þessi sölu, aðallega eftir á, að þetta sé í samræmi við það. Og getur ráðherrann líka upplýst mig að lokum hvort það séu aðrar reglur um verðbréfaviðskipti á Íslandi en á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem forstjóri Bankasýslunnar hefur sagt að hafi komið á óvart að starfsmenn söluráðgjafarinnar keypt í útboðinu?