Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

evrópskir langtímafjárfestingarsjóðir.

508. mál
[17:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að leggja fram enn eitt frumvarpið sem staðfestir reglugerðir í tengslum við fjármálaumhverfið hér á landi. Eins og við höfum því miður þurft að súpa seyðið af þá var regluumhverfið sem við bjuggum við fyrir rúmum áratug, þegar hrunið varð, þess valdandi að við gátum ekki fylgst nógu vel með því sem verið var að gera. Sumar af þeim reglugerðum sem við erum að fá hingað inn eru reglugerðir sem hafa ekki enn verið nýttar hér á landi vegna þess að lagagrundvöllurinn hefur ekki verið settur. Í þessu ákveðna frumvarpi er verið að ræða um langtímafjárfestingarsjóði. Þeir eru mjög hentugt verkfæri fyrir lífeyrissjóði og aðra sem eru að reyna að fjárfesta til lengri tíma en þeir geta einnig verið þægilegt verkfæri fyrir ríkið eða aðra aðila sem eru að byggja upp innviði, t.d. á sviði samgangna, orku, menntunar og annars slíks, eins og kemur fram í þessu lagafrumvarpi. Það er því mikilvægt að við séum að búa til fjárfestingarumhverfi hér á landi sem er sambærilegt við það sem verið er að gera annars staðar í Evrópu og að við getum nýtt okkur það regluumhverfi til þess einmitt að búa til fjárfestingarleiðir sem ríkið hefur t.d. aðgengi að til að bæta innviði hér á landi sem oft er erfitt að finna fjármagn í til stutts tíma í gegnum fjárlög og annað.

Það er ánægjulegt að þetta frumvarp sé komið fram og það er von mín að það fari sem hraðast í gegnum nefndir. Við þurfum að fara að sjá bæði íslenska langtímafjárfestingarsjóði eða að einhverjir nýti sér evrópska sjóði sem fá með þessum lögum möguleika á því að markaðssetja sig hér á landi.