Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherranum kærlega fyrir svarið en langar samt að inna hann aftur eftir kjarnanum í spurningu minni sem er það hvort hann telji ekki að þau áform sem birtast í fjárlagafrumvarpinu muni hafa hamlandi áhrif á orkuskiptin, að þau muni tefja fyrir þeim og hvort það verði ekki de facto þannig að ásókn í rafmagnsbíla muni minnka, einfaldlega vegna þess að munurinn á því að kaupa þá og hina bílana fer minnkandi. Það er bara það sem gerist með þessari leið sem verið er að velja að fara í þessu fjárlagafrumvarpi. Ég ætla hins vegar að undirstrika það hér að ég er í sjálfu sér ekkert að gera einhvern meiri háttar ágreining um þetta atriði vegna þess að ég skil mætavel af hverju menn fara í þessa aðgerð að því leytinu til að á einhverjum tímapunkti þurfa þeir sem aka um á rafmagnsbílum að taka þátt í að borga þær samgöngubætur sem þarf að fara í og það allt saman. Og það er auðvitað gott og blessað að við séum að vinna í því að fá bílaleigurnar inn í þetta til að skapa heilbrigðari eftirmarkað. Þessi eftirmarkaður verður auðvitað til smátt og smátt eftir því sem fleiri rafmagnsbílar fara á göturnar. Þeir eldast og fara þá niður tekjustigann. En ef við erum að velta því fyrir okkur hvort þeir sem hafa minna úr að spila geti keypt sér rafmagnsbíl þá held ég að leiðin til að fara sé ekki sú að fella niður einhverjar ívilnanir og hækka gjöld á þá og þar fram eftir götunum. Mér finnst þetta svolítið ganga gegn þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur markað í þessum efnum, sem ég held að flestir séu sammála um að þurfi að vera, þ.e. að þessi skipti eigi sér stað hratt, vel og örugglega. Er ekki staðan sú að það sem birtist okkur í þessu fjárlagafrumvarpi sem þetta varðar mun hamla orkuskiptum, hægja á þeim?